Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra segir að Íslandi hafa tekist mjög vel til hvað varðar menntun í kórónuveirufaraldrinum. Lilja var gestur Kristjáns Kristjánssonar í Sprengisandi í dag.
Lilja segir forgangsröðun ríkisstjórnarinnar hafa verið mjög skýra allt frá upphafi; í fyrsta lagi skyldi vernda líf og heilsu almennings, og í öðru lagi þyrfti að passa upp á velferð barna og ungs fólks.
„Við höfum sett okkur það að við ætlum ekki að láta brotthvarf á framhaldsskólastigi aukast,“ sagði Lilja í þættinum. Hún segir að þvert á það sem spáð var hafi brotthvarf á vorönn í ár minnkað og einkunnir hækkað.
Lilja segir þær breytingar sem gerðar voru nýlega á Menntasjóði námsmanna (áður LÍN) hafa verið löngu tímabærar, og að þær séu hluti af efnahagsáætlun stjórnvalda gegn kórónuveirunni, þ.e. að þeir sem misst hafa vinnuna séu velkomnir í menntakerfið.
Einnig var rætt um ráðuneytisstjóramálið svokallaða. „Þetta mál hefur tekið mjög mikið á mig,“ sagði Lilja, en hún höfðaði dómsmál gegn Hafdísi Helgu Ólafsdóttur, skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu, eftir að kærunefnd jafnréttismála komst að þeirri niðurstöðu að jafnréttislög hefðu verið brotin við ráðningu ráðuneytisstjóra í menntamálaráðuneytið.
Lilja hélt því fram að hún ætti sama rétt og allir aðrir borgarar til að höfða dómsmál til verndar hagsmunum sínum, og að hún hefði sannarlega haldið það að hún væri að breyta rétt með ráðningunni.
Úrskurð kærunefndar jafnréttismála má nálgast hér.