Degi íslenskrar tungu er í dag fagnað víða um land einkum í grunnskólum landsins.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið boðar til hátíðardagskrár sem streymt verður frá út Hörpu kl. 16. Þar mun Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra flytja ávarp og tilkynna um verðlauna- og viðurkenningarhafa Verðlauna Jónasar Hallgrímssonar árið 2020. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.
Þar kemur einnig fram að eftirfarandi viðburðir verða haldnir í tilefni dagsins:
- Hannesarholt gefur út upptöku af lagi Valgeirs Guðjónssonar við ljóð Hannesar Hafstein, Hraun í Öxnadal. Lagið var frumflutt á 7 ára afmæli Hannesarholts í febrúar síðastliðinn. Áður hefur Hannesarholt fengið samin þrjú lög við ljóð Hannesar Hafstein og í ár gerði stofnunin enn betur og efndi til lagakeppni og fékk send inn yfir 200 lög við rúmlega 50 ljóð Hannesar. Þar fundu lagahöfundar á öllum aldri innblástur í meira en aldargömlum ljóðum sem leika á alla tóna tilfinningaskalans.
- „Viltu tala íslensku við mig?“ er samstillt átak Íslenskuþorpsins, grunnskólanna í Grafarvogi og á Kjalarnesi í íslensku sem öðru máli. Skólarnir halda daginn hátíðlegan með því að vekja athygli á mikilvægi samskipta á íslensku sérstaklega fyrir þá sem eru að læra íslensku. Í myndbandi til stuðnings átakinu hvetja nemendur og þjóðþekktir einstaklingar til samskipta á íslensku með slagorðinu „Viltu tala íslensku við mig?“
- Á vegum Bókasafns Reykjanesbæjar verða ljóð Jónasar Hallgrímssonar til sýnis og aflestrar á vel völdum gönguleiðum í bænum. Ljóðin munu hanga uppi í viku frá 16. nóvember til 23. nóvember.
Stykkishólmsbær efnir til leiks
Stykkishólmsbær hefur skipulagt orðafjársjóðsleit og skorað á íbúa að setja orð í glugga, líkt og gert var með bangsa fyrr á árinu.
„Veljum okkar uppáhalds orð sem eru jákvæð, fyndin, skrýtin, skemmtileg eða forvitnileg. Höfum letrið stórt og læsilegt svo auðvelt sé að lesa í hæfilegri fjarlægð,“ segir á heimasíðu Stykkishólmsbæjar.
Auðlind í glugga Fiskistofu í Stykkishólmi
Ljósmynd/Sigrún Sif
Hraun í glugga ráðhússins í Stykkishólmi
Ljósmynd/Sigrún Sif
Deginum fagnað ár hvert síðan 1996
Dagur íslenskrar tungu hefur verið haldinn hátíðlegur frá árinu 1996. Haustið 1995 ákvað ríkisstjórn Íslands, að fenginni tillögu menntamálaráðherra að 16. nóvember, fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, yrði dagurinn íslenskrar tungu. 16. nóvember er opinber fánadagur.