Samkvæmt ályktun á ársfundi Samtaka evrópskra blaðamanna (EFJ) fyrr í þessum mánuði er Róbert Spanó, forseti Mannréttindadómstóls Evrópu, vanhæfur í öllum þeim 10 þúsund málum sem send hafa verið dómstólnum og tengjast Tyrklandi. Fara samtökin fram á að Róbert víki sæti í þeim málum.
Kemur þetta til vegna heimsóknar Róberts Spanó til Tyrklands í september, en þar tók hann við heiðursdoktorsnafnbót við Háskólann í Istanbúl. Kemur fram í ályktuninni að háskólinn hafi rekið 200 kennara í aðgerðum stjórnvalda gegn andstæðingum stjórnvalda og Spanó hafi ekki hitt leiðtoga stjórnarandstöðunnar, heldur einungis Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands.
Heimsókn Róberts og viðtaka nafnbótarinnar hafa verið harðlega gagnrýnd bæði hér heima og erlendis, meðal annars af mannréttindafrömuðum, stjórnarandstæðingum í Tyrklandi og þingmönnum hér á landi og fyrrverandi hæstaréttardómara. Hins vegar hafa aðrir sagt að hefð væri fyrir að dómarar við dómstólinn færu í heimsóknir sem þessar og fengju heiðursnafnbót.
Róbert sagði sjálfur í svari til Fréttablaðsins eftir heimsóknina: „Að hafna þessu hefði líka verið gagnrýnt harðlega í hina áttina og stjórnvöld sakað dómstólinn um að vera pólitískan.“ Sagði hann jafnframt sterk rök hafi verið bæði með og á móti því að hafna umræddum titli vegna ástandsins í Tyrklandi.
Er ályktun EFJ gegn setu Róberts í málum sem tengjast Tyrklandi hluti af stærri ályktun vegna ástandsins í Tyrklandi, en samtökin segja Tyrkland meðal þeirra landa sem hafi handtekið flesta blaðamenn. Segja samtökin að þrátt fyrir nokkrar ályktanir ríkisstjórna Evrópulanda og Evrópusambandsins hafi aðgerðir þeirra verið of linar og þörf sé á harðari aðgerðum, svo sem viðskiptaþvingunum og frystingu eigna.