Samgöngustofa hefur nú í þremur tilvikum komist að þeirri niðurstöðu að Icelandair beri að endurgreiða viðskiptavinum sínum sem greiddu með gjafabréfum í gegnum stéttarfélög að fullu í reiðufé en ekki með gjafabréfum. Taka málin til mismunandi ferða á tímabilinu mars til júlí á þessu ári sem öllum var frestað með meira en tveggja vikna fyrirvara.
Hefur Icelandair kært í alla vega einu máli ákvörðunina til samgönguráðuneytisins. Í þessum þremur tilfellum nemur heildarupphæðin sem viðskiptavinirnir fara fram á að fá endurgreidda um einni milljón króna, en tólf farþegar áttu bókað flug í málunum þremur. Rúv sagði fyrst frá málinu fyrr í morgun.
Einstaklingar hér á landi hafa lengi getað keypt gjafabréf hjá Icelandair í gegnum stéttarfélög og fæst þá afsláttur. Í þessum málum öllum höfðu viðskiptavinirnir notað gjafabréfin auk þess að greiða 45 þúsund upp í 182 þúsund krónur aukalega fyrir flugferðirnar. Eftir að ferðirnar höfðu verið felldar niður hafði Icelandair endurgreitt þá upphæð sem var greidd aukalega inn á kreditkort viðskiptavinanna, en ætlað að endurgreiða restina með gjafakortum.
Viðskiptavinirnir vildu ekki sætta sig við þetta og kvörtuðu til Samgöngustofu. Í fyrsta málinu, sem Samgöngustofa úrskurðaði um í júní, höfðu flugferðir síðasta sumar verið felldar niður vegna breytinga á flugáætlun í tengslum við kyrrsetningu Boeing 737-MAX-flugvéla.
Hafði Icelandair endurgreitt það sem aukalega hafði verið greitt með korti sem og 222 þúsund með reiðufé vegna gjafabréfs sem hafði verið notað að upphæð 400 þúsund. Deilt var um þær 178 þúsund krónur sem stóðu eftir og var niðurstaða Samgöngustofu sem fyrr segir að Icelandair bæri að endurgreiða þær í reiðufé.
Fram kemur í seinni málunum, en niðurstaða Samgöngustofu var birt fyrir helgi í þeim, að Icelandair hefði kært niðurstöðu fyrra málsins til samgönguráðuneytisins. Í þessum málum höfðu flugferðir í sumar verið felldar niður vegna áhrifa af kórónuveirufaraldrinum. Afstaða Samgöngustofu var sú sama og áður og var Icelandair gert að endurgreiða í öðru tilfellinu viðskiptavinum 495 þúsund krónur í reiðufé og hins vegar 240 þúsund krónur í reiðufé.