Íslendingar þurfi að gera betur í spillingarmálum

Spilling innan lögreglunnar er sérstaklega tekin fyrir í skýrslu GRECO.
Spilling innan lögreglunnar er sérstaklega tekin fyrir í skýrslu GRECO. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslendingar þurfa að leggja sig betur fram til þess að sporna við spillingu og leggja aukna áherslu á heiðarleika hjá forstöðufólki hjá ríkisstofnunum og á sviði löggæslu. Þetta kemur fram í skýrslu á vegum GRECO,  ríkjahóps gegn spillingu innan Evrópuráðsins, sem út kom í dag.

Er niðurstaða GRECO sú að Ísland hafi gert úrbætur á 4 af 18 atriðum sem GRECO hefur lagt til að gerðar verði úrbætur á í málaflokknum.

Segir í skýrslunni að úrbætur stjórnvalda séu vel meintar en þó sé skortur á því að embættismönnum sé leiðbeint um samskipti við hagsmunaaðila auk þess sem reglur um starfslok, svo sem uppsagnarfrest og starfslokasamninga, séu óskýrar.

Þá harmar GRECO einnig að ekkert hafi verið gert til þess að taka á misræmi milli hegðunarviðmiða fyrir stjórnendur og að útvega þeim viðeigandi leiðsögn. Skerpa þurfi verulega á verklagi gegn spillingu í kringum störf hátt settra embættismanna.

Takmarka þurfi pólitísk afskipti á sviði löggæslu

„Ísland þarf að takmarka pólitísk afskipti á sviði löggæslu og skýra betur hæfniviðmið á því sviði, til dæmis með því að auglýsa lausar stöður kerfisbundið og skapa grundvöll fyrir því að ráðningasamningar verði ekki endurnýjaðir,“ sagði meðal annars í skýrslunni.

Að lokum fagnaði GRECO nýjum lögum um vernd uppljóstrara, en benti á að skýra þurfti verklag í kringum málaflokkinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert