Af þeim smitum sem hafa verið að koma upp síðustu daga flokkast þau í grunninn undir sama stofn og verið hefur, en hins vegar hafa einnig komið upp tveir aðrir stofnar. Annar þeirra er rakinn til landamæra, en hinn hefur ekki fundist á landamærum og því komist fram hjá skimunar- og sóttvarnakerfinu. Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi almannavarna í dag.
Samtals eru 59 sjúklingar á sjúkrahúsi vegna faraldursins og fækkaði um þrjá milli daga. Af þeim eru þrír á gjörgæslu. Þórólfur sagði að tveir væru í öndunarvél á gjörgæslu á Landspítalanum, en einn væri á gjörgæslu á Sjúkrahúsinu á Akureyri, en sá væri ekki í öndunarvél.
Þórólfur sagði að aðgerðir undanfarnar vikur væru að skila þessum árangri og að álag á heilbrigðiskerfið væri að minnka. Sagði Þórólfur að gleðjast mætti yfir þessum árangri og tekist hefði að stöðva flest smit sem koma inn í landið.
Þrátt fyrir góðan árangur sagði Þórólfur að hann væri með áhyggjur af þeim tíma sem nú væri að fara í hönd. Þar hefði hann áhyggjur af því að fólk myndi missa sig aðeins í kringum jólahátíðina og að þá væri líklegra að upp kæmu hópsýkingar. Ítrekaði hann að hamra þyrfti á sömu hlutunum aftur og aftur varðandi einstaklingsbundnar sóttvarnir.
Sagði Þórólfur að skelfilegt væri að fá upp stóran faraldur í kringum áramótin þegar bóluefni væri í sjónmáli, en Þórólfur sagði á fundinum að hann væri bjartsýnn á bólusetningar á fyrri hluta ársins. Líkti Þórólfur nýrri bylgju eftir hátíðirnar við landsleik karlalandsliðsins í knattspyrnu, en liðið missti niður eins marks forystu gegn Ungverjalandi og komust Ungverjar í kjölfarið yfir sem varð til þess að þeir komast á lokamót Evrópumótsins í stað Íslendinga.