Dómsmálaráðherra hefur ákveðið að leggja til við forseta Íslands að Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen verði skipaðar dómarar við Hæstarétt Íslands frá og með næsta mánudegi. Taka þær sæti við dómstólinn eftir að Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson sóttu um lausn frá embætti í sumar.
Ása Ólafsdóttir lauk embættisprófi í lögfræði frá lagadeild Háskóla Íslands árið 1996 og framhaldsnámi í lögfræði frá Cambridge-háskóla árið 2000. Hún starfaði að námi loknu sem lögmaður um árabil og hefur flutt fjölda mála fyrir dómstólum. Hún öðlaðist málflutningsréttindi fyrir Hæstarétti Íslands árið 2005. Frá árinu 2008 hefur Ása lengst af gegnt fullu starfi við lagadeild Háskóla Íslands, þar af sem dósent frá árinu 2012 og prófessor frá 2018. Þá hefur hún sinnt umfangsmiklum fræðastörfum, einkum á sviði fjármunaréttar og réttarfars. Ása var settur dómari við Landsrétt 25. febrúar – 30. júní 2020 og að auki hefur hún sinnt fjölmörgum öðrum störfum, svo sem formennsku í gjafsóknarnefnd og óbyggðanefnd, og átt aðkomu að samningu fjölda lagafrumvarpa.
Björg Thorarensen lauk embættisprófi í lögfræði frá lagadeild Háskóla Íslands árið 1991 og framhaldsnámi í lögfræði frá Edinborgarháskóla árið 1993. Hún starfaði í dómsmálaráðuneytinu um árabil að námi loknu, þar af sem skrifstofustjóri um sex ára skeið. Frá árinu 2002 hefur Björg verið prófessor við lagadeild Háskóla Íslands og samhliða því sinnt umfangsmiklum fræðastörfum, einkum á sviði stjórnskipunaréttar og mannréttinda, en einnig á sviði þjóðaréttar, persónuverndarréttar, stjórnsýsluréttar og sakamálaréttarfars. Björg var settur dómari við Landsrétt 1. janúar – 30. júní 2020 og að auki hefur hún sinnt fjölmörgum öðrum störfum, þ. á m. sem umboðsmaður ríkisstjórnar Íslands við Mannréttindadómstól Evrópu og sem formaður stjórnar Persónuverndar um árabil.
Greta og Þorgeir voru elstu dómarar við réttinn, en þau voru fjórði og fimmti dómarinn við réttinn sem hættu á innan við einu ári. Höfðu þeir Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson fengið lausn frá embætti 1. október og Helgi Ingólfur Jónsson óskaði eftir lausn í janúar. Þess má geta að Björg, sem nú er skipuð dómari, er gift Markúsi.
Átta sóttu um embættin tvö í þetta skipti. Voru það eftirfarandi: