Ekkert hjarðónæmi án bólusetningar

Sóttvarnalæknir Bandaríkjanna, Anthony Fauci, segir niðurstöður þriðja stigs klínískra rannsókna á bóluefni bandaríska líftæknifyrirtækisins Moderna lofa afar góðu. Niðurstöðurnar sýni að mRNA-tæknin hafi sannað sig en ýmsir hafa haft efasemdir um hana.

Moderna tilkynnti í gær að prófanir þess á bóluefni sínu gegn kórónuveirunni bentu til þess að það sýndi um 94,5% virkni gegn veirunni. Eru þær frumniðurstöður byggðar á þriðja stigs prófunum á rúmlega 30.000 manns, en þetta er annað bóluefnið á einni viku sem sýnir mikla virkni gegn veirunni.

Bæði bóluefnin, það er bóluefnið frá Moderna og Pfizer/BioNTech, byggja á tækni, þar sem erfðaupplýsingar veirunnar, svonefnt mRNA, eru nýttar til þess að láta frumur líkamans framleiða mótefni gegn veirunni.

Moderna hyggst sækja um leyfi fyrir bóluefninu innan bæði Bandaríkjanna og annars staðar á næstu vikum, og segir fyrirtækið að það geri ráð fyrir að um 20 milljónir skammta verði tilbúnir í Bandaríkjunum fyrir árslok, og allt að einn milljarður skammta verði framleiddur á næsta ári.

Bóluefni Moderna þykir hafa þá kosti umfram bóluefni Pfizer/BioNTech, að það er auðveldara í geymslu og flutningi, en á móti kemur að það nýtir meira af erfðaupplýsingum veirunnar í hverjum skammti, sem þýðir að það hentar verr til fjöldaframleiðslu. Þá er um hvorugt bóluefnið vitað hversu lengi það veitir vörn gegn veirunni.

Bóluefnið fær jafnvel neyðarsamþykki í Bandaríkjunum á næstu vikum en Fauci segist hafa ákveðnar áhyggjur af því hvernig muni ganga að fá Bandaríkjamenn til að láta bólusetja sig. Til þess að bóluefni hafi einhver áhrif og stöðvi framgöngu sjúkdómsins verði hátt hlutfall samfélagsins að láta bólusetja sig. Að öðrum kosti er þetta unnið fyrir gýg.

Bólusetningar hafa verið almennar hér á Íslandi í marga áratugi og þátttaka í þeim er mikil, einkum í bólusetningu barna. Þetta er mjög mikilvægt þar sem farsóttum verður ekki haldið í skefjum nema þorri fólks sé bólusettur. Brýnt er að bólusetningar barna nái til nær allra barna í hverjum fæðingarárgangi. Með því móti er unnt að mynda svonefnt hjarðónæmi gegn skæðum smitsjúkdómum, sem þýðir að ónæmi gegn þeim verður nægilega algengt í landinu til þess að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdómanna, jafnvel þótt vart verði við einstök tilfelli.

Fauci segir í viðtali við AFP-fréttastofuna að hann hefði sætt sig við bóluefni sem veitti vernd gegn veirunni í 70-75% tilvika. Að bóluefni sé með 94,5% virkni sé stórkostlegt og einstakt. Í raun miklu betra en nokkur hafði þorað að vona.

Fauci leiðir starf banda­rísku smit­sjúk­dóma- og ónæm­is­fræðistofn­un­arinnar (Nati­onal Institu­te of Allergy and In­fecti­ous Diseases, NIAID) sem hóf þróun á bóluefninu með bandaríska líftæknifyrirtækinu í janúar, skömmu eftir að kínversk yfirvöld veittu upplýsingar um erfðaefni nýju kórónaveirunnar, SARS-CoV-2. 

Bóluefni sem byggir á þessari tækni, mRNA, hefur aldrei hlotið samþykki frá bandaríska lyfjaeftirlitinu hingað til enda um tiltölulega nýja tækni að ræða.

„Það höfðu margir efasemdir um að nota eitthvað sem ekki hafði verið prófað og reynt árum saman og staðreyndin er sú að sumir hafa gagnrýnt okkur fyrir það,“ segir Fauci.

Af þeim 95 sem veiktust af Covid-19 í tilraunum Moderna höfðu 90 fengið lyfleysu en fimm fengið lyfið, sem nefnist mRNA-1273, sem þýðir að virknin er 94,5%. 

Fauci rifjar upp að efasemdir hafi verið um hvort bóluefni geti komið í veg fyrir alvarleg tilvik Covid-19 eða  bara vægari tilvik. En þessu hafi verið svarað í rannsókn Moderna því 11 alvarleg veikindi komu upp meðal þátttakenda en enginn þeirra hafði fengið bóluefnið. Allir 11 höfðu fengið lyfleysu svo það sé augljóst að nýja bóluefnið veitir vörn gegn alvarlegum Covid-veikindum.

Spurður út í hvort mRNA-tæknin hafi sannað gildi sitt segist Fauci ekki efast um það. „Ég tel að þegar þú ert með tvö bóluefni eins og þessi, sem hafa sýnt yfir 90% virkni þá sé mRNA-tæknin komin til að vera. Hún hafi sýnt sig og sannað og það þurfi ekki að leggja frekari sönnur á það.“

„Tölurnar tala sínu máli. Þetta er ekki mín skoðun – líttu á tölurnar,“ segir Fauci í viðtalinu. 

Einhverjum spurningum er enn ósvarað. Til að mynda hversu lengi endist ónæmið? Fauci segist vera viss um að það sé einhver tími fyrir tilstuðlan minnisfruma í ónæmiskerfinu, svokallaðra B-fruma. En hversu lengi sé ekki hægt að segja til um á þessari stundu. „Við vitum ekki hvort það er ár, tvö ár, þrjú ár, fimm ár, við vitum það ekki,“ segir Fauci.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert