Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur birt til umsagnar í samráðsgátt frumvarp um breytingu á lögum um aðgangsskilyrði í háskóla.
Markmið lagabreytinganna er að auðvelda fólki með framhaldsskólapróf af svokölluðu þriðja hæfniþrepi að fá inngöngu í háskóla. Undir þriðja hæfniþrep fellur framhaldsskólanám þar sem lögð er áhersla á lögvarin störf, sérhæft starfsnám og listnám.
Felur frumvarpið þar með í sér aukið jafnræði til náms, að því er segir í tilkynningu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu.
Í núgildandi lögum um háskóla segir, í 19. grein, að nemendur sem hefja nám í háskóla skuli „hafa lokið stúdentsprófi eða jafngildu prófi“. Verði frumvarpið samþykkt verða skilyrðin þau að viðkomandi hafi lokið stúdentsprófi eða framhaldsskólaprófi af þriðja stigi.
Eftir sem áður verður háskólum þó heimilt að innrita „nemendur sem búa yfir jafngildum þroska og þekkingu að mati viðkomandi háskóla“.
Haft er eftir Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra í tilkynningu að með breytingunni sé ekki með neinu móti verið að draga úr sjálfstæði og ábyrgð háskóla á starfsemi sinni heldur verið að ryðja úr vegi hindrunum sem verið hafa milli bók- og starfsnáms. Með breytingunni skapist hvati fyrir háskóla til að skilgreina aðgangsviðmið í samræmi við kröfur til mismunandi náms.