Sjálfstæðismenn leggja fram tillögu í borgarstjórn Reykjavíkur í dag um aðgerðir Reykjavíkurborgar til viðspyrnu vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar, sem leggist þungt á bæði fólk og fyrirtæki.
Þær eru ætlaðar til þess að koma til móts við rekstraraðila, sem orðið hafa fyrir tekjufalli af völdum faraldursins, svo þeir geti hjarað þar til hann er yfirstaðinn, en einnig miða þær að því að koma fólki í vanda til hálpar.
Tillögurnar eru fimmþættar, en að sögn Eyþórs Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, er markmiðið að aðgerðirnar komi að gagni nú þegar, að þær rúmist innan fjárhagsáætlunar og valdi ekki frekari búsifjum.
„Það er mikilvægt fyrir Reykjavík að byggja upp viðspyrnu fyrir vorið, það er margt sem dettur út um áramót. Borgin boðaði í vor að það kæmu fleiri úrræði og það er kominn tími á þau. Það getur ekki beðið,“ segir Eyþór meðal annars í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.