ASÍ gagnrýnir bankana og OECD

Drífa Snædal, forseti ASÍ.
Drífa Snædal, forseti ASÍ. Ljósmynd/Aðsend

ASÍ gagnrýnir íslenska banka harðlega fyrir að auka vaxtaálag sitt á tímum heimsfaraldurs, sérstaklega í ljósi þess að nýlega voru lækkaðir stýrivextir og bankaskattur, sem stuðla átti að lægri álögum fyrir íslensk heimili. Þess er krafist að fjármálastofnanir skili vaxtalækkunum og lægri bankasköttum til neytenda. 

Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á fundi miðstjórnar ASÍ í dag. 

Stýrivextir Seðlabankans eru nú í 0,75% og hafa lækkað um 3,75% síðan í ársbyrjun í fyrra. Þá segir að fyrirhugað sé að lækka bankaskatt því sem nemur 7,7 milljörðum frá 2020 til 2023. Þeirri ákvörðun var síðan flýtt vegna kórónuveirufaraldursins og efnahagslægðar í kjölfar hans. 

Bankar axli ekki ábyrgð

Því er það sagt skjóta skökku við að bankar hækki vaxtaálag sitt. Það gangi gegn lífskjarasamningi og grafi undan viðspyrnu við efnahagsþrengingum á tímum heimsfaraldurs.

„Með þessu taka bankarnir til sín stóran hlut af lækkun vaxta og axla ekki ábyrgð á erfiðum tímum. Á sama tíma eru bankarnir að auka hagnað sinn og eigið fé á kostnað heimila og fyrirtækja í landinu,“ segir í tilkynningunni

Segja OECD leggja til að skerða réttindi launafólks

Önnur ályktun var samþykkt á fundi miðstjórnar ASÍ í morgun en í lýsir sambandið yfir furðu sinni með tillögur Efnahags- og samvinnustofnunarinnar OECD um samkeppnismat á regluverki á sviðum byggingarstarfsemi og ferðaþjónustu á Íslandi. Tillögurnar voru kynntar nýverið, með þar til gerðri skýrslu, eins og mbl.is greindi frá.

ASÍ lýsir yfir andstöðu við þær tillögur OECD að leggja niður lögverndun starfsheita, en fyrrnefnd skýrsla kveður einmitt á um slíkt. Þá hefur Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, lagt fram þingsályktunartillögu um að hætta skuli lögverndun hagfræðinga, viðskiptafræðinga og bókara.

„Sú ákvörðun að birta tillögur þessar nú þegar alvarlegasta efnahagskreppa í manna minnum ríður yfir með gríðarlegu atvinnuleysi er sem blaut tuska framan í launafólk í landinu. Ekki er ljóst hvort dómgreindarbrestur fremur en óskammfeilni ræður þar för,“ segir í alýktun ASÍ

Vara við breyttu eignarhaldi Keflavíkurflugvallar

Einnig kemur fram í ályktun ASÍ um tillögur OECD að launafólk og landsmenn allir skuli varast tillögur um breytt eignarhald á Keflavíkurflugvelli. Tillögur OECD eru sagðar miða að sundrungu og að því að veikja stoðir velferðar.

„Miðstjórn ASÍ varar launafólk og landsmenn alla við tillögum OECD um breytt eignarhald á rekstri Keflavíkurflugvallar. Reynslan kennir að slíkar breytingar eru ekki gerðar í nafni almannahagsmuna enda er markmiðið jafnan að hleypa útvöldum og innmúruðum að almannagæðum í nafni „samkeppnishæfni” og „hagræðingar”.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert