Neyddust til að flytja barn úr skólanum

Horft yfir Fossvogsskóla.
Horft yfir Fossvogsskóla. mbl.is/Hallur Már

Foreldrar neyddust í síðustu viku til að flytja barn sitt úr Fossvogsskóla vegna þess að skólayfirvöldum mistókst að gera því kleift að stunda nám í öruggu húsnæði. Þetta kemur fram í bréfi sem formaður foreldrafélags Fossvogsskóla sendi foreldrum barna í skólanum.

Þar segir að heilsa barnsins sé orðin mjög löskuð eftir langvarandi vist í rakaskemmdu skólahúsnæði.

Greint var frá því í byrjun október að Náttúrufræðistofnun Íslands teldi líklegt að umfangsmiklar framkvæmdir á liðnum misserum til að uppræta leka- og raka­vanda­mál í Foss­vogs­skóla hafi borið ár­ang­ur, m.a. með því að fjar­lægja skemmt bygg­ing­ar­efni. 

Þar kom enn fremur fram að taka þyrfti sýni aftur í þessum mánuði en ávallt verði að leggja áherslu á vand­leg þrif, góða loftræst­ingu og að hæfi­legt raka- og hita­stig sé í skóla­hús­næðinu.

Hins vegar segir í bréfi formanns foreldrafélagsins að fleiri börn í Fossvogsskóla búi við verulega skert lífsgæði vegna dvalar í menguðu skólahúsnæði og öll börn sem ganga í skólann hafa verið útsett fyrir sömu mengunarvöldum um lengri eða skemmri tíma.

„Þrátt fyrir framkvæmdir síðastliðinna tveggja skólaára eru börn enn að veikjast í skólanum. Stjórn foreldrafélagsins hefur fengið sérfræðing hjá EFLU verkfræðistofu í innivist og rakaskemmdum til ráðgjafar. Foreldrafélagið hefur boðið borginni að kostnaðarlausu aðkomu þessa sérfræðings í því skyni að styrkja samráð og vekja traust á aðgerðum borgarinnar. Erindinu hefur enn ekki verið svarað, þremur vikum eftir framlagningu þess,“ segir í bréfinu.

Alls hafa foreldrar níu barna í skólanum haft samband við fulltrúa foreldra í skólaráði og lýst einkennum barna í tengslum við veru í skólahúsnæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert