Bílnum hugsanlega ekið of hratt

Bíllinn varð alelda eftir veltuna.
Bíllinn varð alelda eftir veltuna. mbl.is/Þorgeir

Engin ytri ummerki skýra tildrög slyssins sem varð við bæinn Ytri-Bægisá í Hörgársveit í byrjun mánaðarins þegar bíll fór út af veginum og brann. Hugsanlegt er að bílnum hafi verið ekið of hratt en ekki er hægt að segja til um það að svo stöddu.

Þetta segir Bergur Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra.

Sambýlisfólk var í bílnum, maður og kona á þrítugsaldri. Mann­in­um tókst að kom­ast út úr bíln­um af sjálfs­dáðum en kon­an vankaðist og þurfti að hjálpa henni út. Tekin hefur verið skýrsla af honum og stefnt er að því að taka skýrslu af henni sem fyrst. Þau hlutu bæði fjöláverka í slysinu og konan liggur enn á sjúkrahúsi. Bergur segist ekki hafa nánari upplýsingar um meiðsli þeirra.

Hann segir rannsókn málsins ganga vel og gagnaöflun er í fullum gangi. Spurður út í tildrögin segir Bergur að vettvangur slyssins sé bæði stór og langur. Akstursskilyrðin voru góð og engin hálka en mögulegt er að hraðinn hafi haft áhrif. Ef lögreglan vill komast að því hver hraði bifreiðarinnar var mun hún þurfa á sérfræðiaðstoð að halda. Fyrst þarf að vinna úr öllum gögnum sem búið er að afla.

„Við þurfum að byggja á þessum mælingum okkar á vettvangi. Við munum notast við sérfræðinga vegna hraða ef ekkert annað liggur fyrir,“ segir Bergur og bætir við að bíllinn hafi brunnið það mikið að ekki er hægt að sækja gögn þangað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert