Eftirsótt að byggja við höfnina

Faxaflóahafnir eru ekki með áform um að fara í uppbyggingu …
Faxaflóahafnir eru ekki með áform um að fara í uppbyggingu á Miðbakka umfram það sem sýnt er í gildandi skipulagslýsingu. Tölvuteikning/Yrki Arkitektar

Gamla höfnin í Reykjavík hefur gengið í endurnýjum lífdaga á undanförnum árum. Þar hafa risið íbúðarhús og hótel, afþreyingarfyritæki hafa tekið til starfa, ný veitingahús verið opnuð og svo mætti áfram telja. Höfnin hefur mikið aðdráttarafl, bæði fyrir Íslendinga og erlenda ferðamenn.

Það þurfti því ekki að koma á óvart þegar Morgunblaðið flutti af því fréttir í júní í sumar að malasíski auðkýfingurinn Vincent Tan vildi byggja rúmlega 33 þúsund fermetra fjölnotabyggingu á Miðbakka hafnarinnar. Send var inn fyrirspurn þess efnis sem vísað var til umsagnar verkefnisstjóra skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar. Vincent Tan var fyrst þekktur á Íslandi sem eigandi velska knattspyrnufélagsins Cardiff City, en með því liði lék landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson um árabil. Tan komst aftur í fréttirnar í fyrra, þegar hann keypti meirihluta í Icelandair Hotels af Icelandair Group.

Fimm stjörnu lúxushótel

Hinn 11. nóvember sl. birti ViðskiptaMogginn viðtal við Tryggva Þór Herbertsson fulltrúa Vincents Tans hér á landi. Þar upplýsti Tryggvi Þór að malasíski kaupsýslumaðurinn hefði tryggt 40 milljarða króna fjármögnun til þess að hefjast handa við uppbyggingu hússins. Í hluta þess á að reka 150 herbergja fimm stjörnu lúxushótel undir merkjum Four Seasons-keðjunnar. Hún myndi einnig þjónusta 100 fimm stjörnu þjónustuíbúðir í húsinu, sem seldar yrðu einkaaðilum.

Nokkrum dögum áður en viðtalið birtist, eða hinn 6. nóvember, hafði embætti skipulagsfulltrúa Reykjavíkur tekið neikvætt í fyrirspurnina, m.a. með tilvísan til lóðareigandans, Faxaflóahafna, sem tók neikvætt í erindið.

Gamla höfnin í Reykjavík var byggð upp í áföngum á fyrri hluta síðustu aldar, eða fyrir rúmlega hundrað árum. Síðan þá hefur athafnarými verið aukið stórlega með landfyllingum, ekki síst í Örfirisey. Á árunum 1992-1993 var Miðbakki, fyrir framan hafnarhúsið, fluttur fram með landfyllingum. Mest var breikkunin næst Grófarbakka eða um 90 metrar en minnst næst Austurbakka, 30 metrar. Á þessu svæði eru lóðirnar Geirsgata 11-15, þar sem malasíski milljarðamæringurinn vill byggja stórhýsið. Á lóðinni Geirsgötu 11 stendur vöruskemma, 2.574 fermetrar, sem reist var árið 1982 úr forsteyptum einingum og er varðveislugildi hennar ekki talið mikið. Þar voru fyrst vörugeymslur Ríkisskipa, en síðar var þar fiskvinnsla Jóns Ásbjörnssonar hf. og Fiskkaupa hf. sem seldu Guðmundi Kristjánssyni í Brimi húsið. Hann seldi svo félagi Vincents Tans, Berjaya Corporation, húsið á 1.670 milljónir í fyrra. Áður hafa komið fram hugmyndir um stórfellda uppbyggingu á lóðinni en þeim hefur verið hafnað. Má nefna að Guðmundur í Brimi sótti árið 2018 um að fá að byggja tæplega 28 þúsund fermetra hús á lóðinni.

Lóðin Geirsgata 11 er í eigu Faxaflóahafna en Berjaya Corporation er lóðarhafi. Fyrirtækið ræður ekki yfir lóðunum númer 13 og 15, sem eru í eigu Faxaflóahafna. Engu að síður óskaði fyrirtækið eftir því við Reykjavíkurborg að fyrirhugað stórhýsi yrði skipulagt á lóðunum þremur. Kristín Soffía Jónsdóttir, stjórnarformaður Faxaflóahafna, brást hart við viðtalinu við Tryggva Þór. Hún sagði í viðtali við mbl.is að Vincent Tan hefði engin vilyrði fyrir því að hann geti byggt á Miðbakkanum. „Það sem áformin snúast um er langt umfram skipulag, langt umfram gildandi skipulagslýsingu og það er enginn samningur til á milli hans og hafnarinnar,“ sagði Kristín Soffía. Þetta væri líkast því að vilja byggja á lóð nágrannans án þess að hafa nokkurt vilyrði þess efnis.

Í umsögn Magnúsar Þórs Ásmundssonar hafnarstjóra frá 27. október sl. segir m.a. að að svo stöddu hafi Faxaflóahafnir ekki áform um að fara í uppbyggingu á Miðbakka umfram það sem sýnt er í gildandi skipulagslýsingu. Ekki verði hugað að uppbyggingu þar fyrr en eftir að Vesturbugtin vestan Slippsins hefur byggst upp og að fenginni reynslu borgarbúa af þeirri tegund byggðar.

Búið sé að byggja þétt í kringum höfnina á þessu svæði og frekari uppbygging með háreistum byggingum hindri sjónlínur til hafnar og sjávar. Faxaflóahafnir leggi áherslu á að forgangsraða uppbyggingu á hafnarsvæðum þannig að hún þjóni hafnsækinni starfsemi og skerði ekki framtíðartækifæri í þeirri starfsemi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka