Fólk er svo þakklátt og allir jákvæðir

Eigendur Gott & Blessað - Sveinbjörg, Jóhanna og Anna.
Eigendur Gott & Blessað - Sveinbjörg, Jóhanna og Anna. mbl.is/Árni Sæberg

„Við erum allar reynslumiklar húsmæður með mikinn áhuga á mat og matreiðslu. Á ferðum okkar um landið höfum við oft keypt einhverja frábæra matvöru af smáframleiðendum, á Erpsstöðum, Akureyri, Mývatni, Egilsstöðum eða annars staðar, en þegar okkur langaði seinna í meira eftir að heim var komið, þá var oft torvelt að nálgast hana,“ segja þær vinkonur Anna Júlíusdóttir, Jóhanna Björnsdóttir og Sveinbjörg Jónsdóttir sem tóku til sinna ráða og stofnuðu saman verslunina Gott og blessað í Hafnarfirði, sem og vefverslunina gottogblessad.is.

Gott & Blessað
Gott & Blessað mbl.is/Árni Sæberg

Verslun þeirra er eins konar „bændamarkaður á netinu sem hefur að markmiði að kynna og selja vörur íslenskra smáframleiðenda og heimavinnsluaðila og selja sælkeravörur frá framleiðendum sem nota íslenskt hráefni,“ eins og segir á síðunni þeirra.

„Þetta hefur verið hugsjón hjá okkur í mörg ár, að koma slíkum matvörum undir einn hatt, þar sem auðvelt er að nálgast þær. Við erum með búðina á stærsta markaðssvæðinu, hér í þéttbýlinu, en okkar sérstaða er að við seljum einvörðungu íslenska matvöru frá mörgum framleiðendum, og við erum alltaf að bæta við okkur. Það gefur okkur mikið að finna hvað fólk er ánægt, við erum að auðvelda smáframleiðendum að koma vörum sínum til viðskiptavina, sem þurfa ekki að bíða í marga daga eftir að fá þær heim til sín,“ segja þær og bæta við að viðskiptavinir geti valið hvort þeir fá heimsendingu eða sæki vörur í vöruhúsið í Hafnarfirði.

„Við sendum um land allt og flestar vörur er hægt að panta samdægurs. Fólk er svo þakklátt og frá því að við byrjuðum höfum við fengið já frá öllum þeim framleiðendum sem við höfum leitað til. Þetta hefur verið dásamlegt verkefni að stofna þetta fyrirtæki, þetta er tóm gleði. Allir eru svo jákvæðir, bæði framleiðendur og viðskiptavinir, og ekki skemmir að vera vinkonur saman í þessu.“

Skiptir máli að kaupa innlent

Hér á landi rétt eins og út um víða veröld er vaxandi áhugi og krafa frá fólki að fá matvöru beint frá býli og úr sem mestri nálægð við framleiðslustað, þannig er það líka umhverfisvænt.

„Við Íslendingar búum svo vel að því dýrmæti að vera með hreint vatn og hreint loft, og fyrir vikið er íslensk matvara miklu hreinni vara en sú sem er innflutt. Okkur finnst óboðlegt að þegar við verslum í íslenskum matvörubúðum þá getum við lent í því að vita ekki að við kaupum kannski danska nautalund eða þýskt kjöt, því það er ekkert endilega tekið fram hvar varan er framleidd. Þetta pirrar okkur sem neytendur. Hvers vegna ættum við að eyða gjaldeyri í að flytja inn matvöru sem við getum framleitt sjálf? Hvers vegna erum við að menga með því að fljúga með mat yfir hálfan heiminn sem við getum framleitt sjálf? Við eigum að styðja við hvert annað og umhverfið með því að kaupa matvöru sem við framleiðum sjálf. Við erum svo heppin að geta brauðfætt okkur sjálf, það er dýrmætt og umhugsunarvert nú á veirutímum.“

Þær segja að það hafi komið þeim á óvart hversu fínar gæðamatvörur og fjölbreyttar eru framleiddar á Íslandi. „Þessir smáframleiðendur eru miklir meistarar í okkar huga, það er hreint unaðslegt. Það er gaman hjá okkur á hverjum degi að fá nýjar, flottar, fallegar og vel gerðar vörur. Vegna Covid mun ekki vera árlegur matarmarkaður í Hörpu fyrir jólin, en við seljum töluvert af þeim vörum sem hafa verið til sölu þar,“ segja þær og bæta við að allir sem vilji koma sinni matvöru á framfæri hjá þeim séu velkomnir. „Við erum með opinn faðminn gagnvart þessu yndislega fólki sem leggur á sig að framleiða íslenska matvöru.“

Þær segja að það hafi komið þeim á óvart hversu margir smáframleiðendur hér á landi búi til osta.

„Þetta eru ótrúlega góðir ostar, og fjölbreytileikinn í matvörunum kom okkur líka á óvart, allt frá hunangi upp í fínustu nautasteikur, tilbúnar súpur, gómsætur plokkfiskur og fiskbollur, frosið brauð frá Dalvík, svo fátt eitt sé nefnt. Fólk leggur sál og hjarta í þessa framleiðslu, rétt eins og þegar við sjálf eldum mat heima hjá okkur. Við fáum þessa góðu tilfinningu fyrir öllu sem kemur hingað í hús til okkar. Það er svo mikil ást og kærleikur í þessu sem fólk er að framleiða, við erum alveg heillaðar af því. Við viljum vera í sama liði og þau. Samskiptin verða líka svo persónuleg, og það finnst okkur frábært. Þetta er gaman og gefandi.“

Gott & Blessað
Gott & Blessað mbl.is/Árni Sæberg

Verslunin Gott og blessað er til húsa í Flatahrauni 27 í Hafnarfirði. Vefsíðan er: gottogblessad.is.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert