Segir reglur jöfnunarsjóðs ósanngjarnar

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir Reykjavíkurborg hafa í rúmt ár kallað eftir samkomulagi um breytingar á reglum jöfnunarsjóðs sem borginni finnst „ósanngjarnar og í ósamræmi við lög“. Borgin hefur krafið ríkið um 8,7 milljarða króna vegna vangoldinna framlaga úr sjóðnum. 

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sagði í gær að krafa borgarinnar væri ósanngjörn og óskynsamleg. 

Af útsvari Reykvíkinga fer 12% í jöfnunarsjóð, eða rúmir 11 milljarðar. Reykjavík fær síðan úr sjóðnum 8 milljarða, einkum vegna málaflokks fatlaðs fólks og reksturs Klettaskóla, að því er fram kemur í færslu sem borgarstjóri birti í dag

„Deilurnar nú snúa að reglum sem útiloka borgina frá framlögum í skólamálum, t.d. vegna barna af erlendum uppruna. Öll önnur sveitarfélög á landinu - þ.m.t. á höfuðborgarsvæðinu- fá greiddar 130.000 kr. með hverju barni af erlendum uppruna vegna kennslu. Sömu sögu er að segja um almennt jöfnunarframlag vegna grunnskóla þar sem reyndar er um hærri upphæðir að ræða,“ skrifar Dagur. 

Borgin verði metin eftir sömu reglum og aðrir 

Dagur segir borgina ekki vera að biðja um að sérstakar reglur gildi í tilviki hennar, heldur að borgin verði metin eftir sömu reglum og aðrir. 

„Engin hefur getað útskýrt sanngirnina í núverandi fyrirkomulagi og það eru vonbrigði ef ekki tekst að ná samkomulagi um eðlilegar leiðréttingar á þessu,“ skrifar Dagur.

Ráðhúsið í Reykjavík.
Ráðhúsið í Reykjavík. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert