Skólalokanir „allra síðasta úrræði“

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, fagnar grein Ölmu Möller landlæknis í Morgunblaðinu í dag þar sem landlæknir sagði meðal annars að lokunum skóla ætti ekki að beita nema sem allra síðasta úrræði í kórónuveirufaraldrinum.

Þetta kom fram í máli Lilju á opnum fundi allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis um skólastarf á tímum kórónuveirufaraldursins en ráðherra var gestur fundarins.

Lilja sagði einnig að hún hefði viljað að framhaldsskóla yrðu opnir allan tímann með undanþágum, líkt og á efsta stigi grunnskólans. Það hafi ekki verið gert og hún virði niðurstöðu sóttvarnayfirvalda.

Ráðherra sagði að lykilfólki í skólasamfélaginu hefði verið haldið mjög vel upplýstu frá fyrsta degi faraldursins og að hún hefði haldið yfir 100 formlega samráðsfundi með lykilfólki í skólasamfélaginu. Ísland er eitt fárra ríkja þar sem leik- og grunnskólum hefur verið haldið opnum allan faraldurinn.

Byrjað var að uppfæra allar áætlanir tengdar skólum um miðjan febrúar en þær miðuðu þá að því að almannavarnir settu Ísland á neyðarstig vegna kórónuveirufaraldursins, líkt og varð raunin mánuði síðar. 

„Það er engin ein rétt lausn í þessu og við erum öll að gera þetta í fyrsta sinn,“ sagði Lilja. Hún ítrekaði að fundað væri reglulega með öllum skólastigum.

Reynt hefur verið að fylgjast með líðan nemenda en í könnun sem gerð var í síðasta mánuði kom fram að 14% nemenda í efri bekkjum grunnskóla teldu andlega líðan sína slæma.

Ráðherra benti á aukinn sveigjanleika í verkefnaskilum og prófum í framhaldsskólum. Þá væri boðið upp á aukna sálfræðiþjónustu á því skólastigi og aðgengi væri að sálfræðingi í nánast öllum framhaldsskólum landsins.

„Það sjást ekki vísbendingar um aukið brottfall nemenda í framhaldsskólum en mörg dæmi eru um að nemendur skrái sig úr einstaka áföngum,“ sagði Lilja og bætti við að áhrifin af því á námsframvindu væru óljós.

Nú væri unnið að því að teikna upp nokkrar sviðsmyndir því skólar þurfi bæði að geta búist við hefðbundnu skólahaldi eftir áramót eða fleiri bylgjum kórónuveirufaraldursins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert