„Þetta er gríðarlega alvarlegt“

Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar.
Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar. Árni Sæberg

Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, segir gríðarlega alvarlega stöðu blasa við í ljósi verkfalls flugvirkja sem nú hefur staðið í tvær vikur. Við blasir að í næstu viku verði engin þyrla hjá Landhelgisgæslunni til taks. 

„Við höfum getað haldið einni þyrlu gangandi og við vonumst til þess að hægt verði að halda henni gangandi fram í miðja næstu viku. En í framhaldinu verður hún stopp. Það er óhjákvæmilegt vegna skoðana,“ segir Georg. 

Hann segir að eins og sakir standa séu fimm loftför til taks og þar af þessi eina þyrla. „Staðan er gríðarlega alvarleg og engin lausn í sjónmáli,“ segir Georg. 

Þjónusta við sjófarendur ófullnægjandi 

Sem forstjóri Landhelgisgæslunnar, horfir þú til stjórnmálamanna að stíga inn í deilur með lögbanni á verkfallið? 

„Nei ég horfi ekki í neina sérstaka átt í þessum efnum aðra en þá að einhver lausn verði fundin þannig að við getum sinnt neyðarþjónustu. Landhelgisgæslan er ekki eins og hvert annað flugfélag og við fljúgum bara í neyðartilfellum. Þjónustan við sjófarendur er algjörlega ófullnægjandi. Við komumst ekki út á sjó og það er enginn annar til taks fyrir það,“ segir Georg. 

Þjónusta við sjófarendur er ófullnægjandi að sögn Georgs.
Þjónusta við sjófarendur er ófullnægjandi að sögn Georgs. Þorgeir Baldursson

„Höfum verið gríðarlega heppin“ 

Hann segir að þessi eina þyrla hafi dugað hingað til en ástandið sé gríðarlega viðkvæmt. „Við höfum verið gríðarlega heppin og það hafa ekki verið mörg útköll. En ástandið er afar viðkvæmt og það á ekki bara við um björgunarstarfið heldur almannavarnir almennt,“ segir Georg.  

Hann segir að einnig raski þetta þjálfun annarra stétta sem geri það að verkum að uppsöfnuð þörf sé hjá Landhelgisgæslunni sem muni bitna á þjónustunni langt fram á næsta ár. „Þetta er gríðarlega alvarlegt,“ segir Georg. 

Fram kom í tilkynningu að flugvirkjar hafi ekki veitt neina undanþágu svo hægt sé að sinna lágmarksviðhaldi. 

Kemur einörð afstaða flugvirkja til þessa þér á óvart?

„Ég veit ekki hvað skal segja um það. Í það minnsta hefur ekki verið neitt í viðræðum um það að veita okkur undanþágu til að viðhalda lágmarksþjónustu og þannig er það,“ segir Georg.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert