Fara þarf í mun róttækari endurskoðun en að ráðast á mönnunarvanda í heilbrigðis- og öldrunarþjónustu. Stokka þarf kerfið upp, enda er þjóðin að eldast.
Þetta sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í svari við fyrirspurn Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi.
Logi sagði sorglegt að fylgjast með atburðarásinni á Landakoti, þar sem hópsmit varð, og nefndi að bráðabirgðaskýrsla sýndi alvarlega ágalla á heilbrigðiskerfinu. Þess vegna verði þingmenn að bregðast við. Ekki væri nóg að byggja spítala og hjúkrunarheimili því einnig þurfi að reka þau og manna. Þetta kalli á langtímaáætlun. „Er ekki mögulegt að ná breiðri samstöðu um það á Alþingi að nauðsynlegt sé að ráðast í mönnun í heilbrigðis- og öldrunarþjónustu?“ spurði hann.
Bjarni tók undir með Loga varðandi sorglega atburðarásina á Landakoti en kvaðst ætla að bíða eftir niðurstöðu landlæknis um hvað menn telji að hafi farið þar úrskeiðis.
Hann sagði rót vandans sem Logi benti á vera hrun í einkageiranum. Meðal annars þurfi að auka landsframleiðslu á nýjan leik. „Ef það mistekst höfum við ekki efni á að halda úti þeirri opinberu þjónustu sem við höfum í dag,“ sagði hann og nefndi að tæplega 300 milljarða halli verði á ríkissjóði á þessu ári og svipaður halli verði á því næsta. „Ég held að það þurfi að fara í miklu róttækari endurskoðun en að ráðast á mönnunarvanda,“ bætti hann við og nefndi hækkun lífeyristökualdurs og að búa þurfi til fjölbreyttari leiðir fyrir fólk sem er að eldast til að fá þjónustu.