Undirbúa tjaldgistingu á Flateyri

Tvær athafnakonur hafa sótt um aðstöðu fyrir ofan Sólbakka á Flateyri fyrir rekstur lúxustjalda fyrir ferðafólk á sumrin. Málið er til athugunar hjá skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar og hverfisráði Flateyrar.

Gistiþjónusta í tjöldum hefur verið að ryðja sér til rúms víða um heiminn á undanförnum árum sem valkostur við gistiheimili og hótel. 

Dýrleif Ýr Örlygsdóttir, sem áformar uppbygginguna á Flateyri ásamt Þórunni Ásdísi Óskarsdóttur, segir að aukin ásókn sé í slíka gistingu. Telur hún að það tengist ásókn fólks í að vera úti í náttúrunni en njóta samt þæginda. Oft séu slíkar tjaldbúðir í tengslum við útivist, upplifun og ævintýri.

Þær Ásdís búa í Reykjavík en reka gistihús á Flateyri í félagi við fleira fólk og hafa mikil tengsl við staðinn. „Okkur finnst gott að vera þar, þar er góð orka sem við tengjum við. Önundarfjörður er fallegur og frá þeim stað sem við höfum í huga er magnað útsýni,“ segir hún.

Flateyri.
Flateyri. mbl.is/Sigurður Bogi

Hugmyndirnar ganga út á að koma upp aðstöðu fyrir tíu upphituð tjöld í hlíðinni fyrir ofan Tankinn á Sólbakka sem er rétt innan við Flateyri. Hvert tjald verður á bilinu 20 til 30 fermetrar að stærð, sett upp á viðarpall. Einnig þarf að koma upp klósett- og sturtuaðstöðu. Bílastæði verði gert og einfaldir göngustígar upp að tjöldunum. Móttaka fyrir starfsemina verði í Tanknum sem og einföld kaffiaðstaða.

Hugmyndin er að tjöldin verði sett upp að vori og tekin niður að hausti. Þess ber að geta að svæðið er skilgreint sem snjóflóðahættusvæði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert