Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að á meðan atvinnuleysistölur séu enn að versna séum við ekki enn komin á botninn í þeirri niðursveiflu sem nú er, en að hann hafi trú á hraðari viðsnúningi en spár hafi gert ráð fyrir og að viðspyrna sé framundan. Ljóst er þó að fjárlagahalli ríkissjóðs er gríðarlega mikill og aukinn hagvöxt þarf á komandi árum til að koma í veg fyrir aðhaldsaðgerðir í framtíðinni.
Ríkisstjórnin kynnti efnahagsaðgerðir sínar í dag undir yfirskrift viðspyrnu, en meðal annars á að framlengja hlutabótaleiðinni og þá verður tekjutengt tímabil atvinnuleysisbóta lengt. Þá verða grunnatvinnuleysisbætur hækkaðar, greidd verður eingreiðsla til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega og skerðingarmörk í barnabótakerfinu hækkuð. Þá verður 900 milljónum varið til stuðnings ýmissa viðkvæmra hópa með stuðningi við félagasamtök o.fl.
„Við erum að teygja okkur út til þeirra sem eru að upplifa tekjuhrun og standa með í höndunum öflugan og farsælan rekstur sem er að glíma við forsendubrest. Þessa aðila viljum við styðja sem og þá sem hafa tapað atvinnu sinni í hamaganginum,“ segir Bjarni og bætir við að þannig sé verið að styrkja stuðningskerfin. „Það sem við leitumst eftir í öllu þessu er í einu orði sagt viðspyrna.“
Seðlabankinn og ASÍ hafa nýlega gefið út efnahagsspár sínar og er þar gert ráð fyrir hægum efnahagsbata á næsta ári og að atvinnuleysi verði enn nokkuð hátt. Telur Seðlabankinn að meðal atvinnuleysi muni hækka á næsta ári og vera yfir 10% og lækka hægt árið eftir.
Bjarni segir aðspurður um þessar spár að hann sé bjartsýnni. „Ég hef trú á því að þessar öflugu aðgerðir stjórnvalda geti reynst afar dýrmætar til þess að tryggja viðspyrnuna um leið og aðstæður verða eðlilegri,“ segir hann. Tímasetning bólusetninga skipti reyndar miklu máli í allri þessari óvissu, en að atvinnulífið hafi áður sýnt aðlögunarhæfni í niðursveiflum og þá hjálpi lægra gengi útflutningsgreinum, meðal annars ferðaþjónustunni.
„Held að það megi alveg leyfa sér að vera bjartsýnni en þessar spár boða. Ég hef trú á því að það leynist ómælanlegur kraftur í íslenska hagkerfinu sem muni losna úr læðingi og framtakssemi, dugnaður og vilji til að bjarga sjálfum sér séu einkenni sem Íslendingar búa yfir,“ segir Bjarni.
Halli ríkissjóð hefur verið áætlaður 270-280 milljarðar á ári bæði í ár og næsta ári. Bjarni segir að gríðarlega mikið sé undir að hér verði öflugt hagvaxtarskeið í kjölfar faraldursins „Það skiptir máli fyrir bæði opinber fjármál og sköpun starfa.“ Bætir hann við að miðað við fjármálaáætlun þurfi annað hvort að koma til mun meiri hagvaxtar á næstu árum eða að farið verði í umtalsverðar ráðstafanir á ári 3, 4 og 5 í fjármálaáætluninni til að stöðva skuldasöfnun. Bendir Bjarni á að það þýði í raun að annað hvort þurfi 35-40 milljarða árlega á þessum þremur árum á annað hvort tekju- eða gjaldahliðina til að stöðva að skuldir haldi áfram að safnast á ríkissjóð.
Bjarni segir að aukinn hagvöxtur geti létt þörfinni á aðhaldsaðgerðum, en einnig væri hægt að fara í eignasölu. „Það er eðlilegt að það verði skoðað samhliða,“ segir hann.
Spurður hvort aðgerðirnar sem kynntar voru í dag muni auka halla ríkissjóðs segir Bjarni að ekki sé enn komin uppfærsla á afkomuhorfum ársins 2021 vegna þess að endanlegar tillögur fyrir aðra umræðu fjárlaga liggi ekki fyrir. Hins vegar líti út fyrir að útkoma þessa árs verði ívið betri en spáð hafði verið fyrir um, eða allt að 10 milljörðum. Meðal annars hafi færri þurft að nýta frestun gjalddaga á opinberum gjöldum en gert hafði verið ráð fyrir að sögn Bjarna.
Hann telur aukin útgjöld vegna aðgerðanna sem kynntar voru í dag vel réttlætanlegar þar sem að gera minna hefði mögulega kostað meira til lengri tíma. „Það er alveg ljóst að þessar aðgerðir munu íþyngja okkur á árinu 2021, en það verður að hafa í huga að við búum ekki í tvívíðu hagkerfi. Samspil kraftanna er flóknara en það. Án þessara aðgerða gæti verið að við hefðum þurft að horfast í augu við útgjaldaaukningu víða í félagslegu kerfinu eða bótakerfinu,“ segir Bjarni og bætir við að ríkisstjórnin þurfi að fara betur yfir þau mál áður en fjárlagafrumvarpi næsta árs verði lokað.
Í pakkanum í dag var ekki tilkynnt um frestun gjalddaga opinberra gjalda. Bjarni segir að slíkt sé þó í skoðun. Hann sé að leggja mat á slíkar aðgerðir í samstarfi við skattinn og hvort þörf sé á því. „Getur skipt miklu fyrir þá sem úrræðið nýta og kostar ríkissjóð tiltölulega lítið. Hef ekki útilokað að við myndum framlengja slíkt úrræði, en það er í skoðun.“
Í vor sagði Bjarni við sama tilefni að við værum ekki enn komin á botninn og að töluvert væri í það. Bjarni telur að hagkerfið sé enn ekki alveg komið á botninn, en þó við hann. Bendir hann á að í ár sé gríðarlegur samdráttur í hagkerfinu, en vöxtur á næsta ári. „En mér finnst við ekki ekki hafa náð botninum þegar við sjáum atvinnuleysistölur enn versna og því spáð að þær geti jafnvel versnað enn á næstu vikum. En það verður svo botninn og þaðan fáum við viðspyrnu.“