Greidd verður út 50 þúsund króna eingreiðsla til þeirra örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega sem eiga rétt á lífeyri á árinu fyrir 18. desember, til viðbótar við desemberuppbót sem jafnframt kemur til greiðslu í desember.
Frá þessu greindi Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í dag.
Í tilkynningu frá Stjórnarráðinu segir enn fremur að í upphafi næsta árs verði gerðar varanlegar breytingar á örorkulífeyriskerfi almannatrygginga.
Dregið verður úr innbyrðis skerðingum, sem skili tekjulægstu örorkulífeyrisþegunum tæplega 8.000 króna viðbótarhækkun á mánuði, umfram fyrirhugaða hækkun upp á 3,6% sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi.
Heildarhækkun bóta almannatrygginga til tekjulægstu örorkulífeyrisþeganna verði því tæpar 20 þúsund krónur um áramót.
Um leið verði ráðist í ýmsar mótvægisaðgerðir til að styrkja félagslega stöðu viðkvæmra hópa í heimsfaraldrinum og settur á laggirnar viðbragðshópur um fjárhagsstöðu heimila með fulltrúum frá fjármálastofnunum, hagsmunasamtökum og umboðsmanni skuldara.