Kynntu nýja viðspyrnustyrki

Frá blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í Hörpu.
Frá blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í Hörpu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, kynnti nýtt úrræði á fundi ríkisstjórnarinnar síðdegis í dag, þar sem farið var yfir framhald viðspyrnuaðgerða fyrir atvinnulífið.

Greindi Bjarni frá því að komið yrði á svokölluðum viðspyrnustyrkjum, svo að fyrirtæki verði viðbúin þegar heimurinn opnist að nýju.

Úrræðið mun verða til staðar í gegnum veturinn sem er fram undan og fram á næsta ár að sögn Bjarna.

Verður þá litið til einstakra mánaða í rekstri fyrirtækja og þeir bornir saman við sama mánuð árið 2019, og sækja fyrirtækin um styrki út frá þeim upplýsingum.

Benti Bjarni á að þetta væri í raun hin hliðin á peningnum í baráttunni við atvinnuleysi, að styðja við atvinnurekendur.

Katrín Jakobsdóttir, Bjarni Benediktsson og Ásmundur Einar Daðason.
Katrín Jakobsdóttir, Bjarni Benediktsson og Ásmundur Einar Daðason. mbl.is/Kristinn Magnússon

Greitt milljarð í lokunarstyrki

Nú þegar hefði ríkisstjórnin greitt rúmlega eitt þúsund fyrirtækjum rúman milljarð í lokunarstyrki.

Til viðbótar við þetta sagði Bjarni að breytingar yrðu á lokunarstyrkjakerfinu.

Við útgreiðslu þeirra yrði afnumið hámark á fjölda starfsmanna, sem geti haft veruleg áhrif á meðalstór og stór fyrirtæki.

Nýtt lokunarstyrkjaúrræði horfi þá til tímabilsins frá því þriðja bylgjan reis og fram á næsta ár.

Takast muni að afgreiða styrki á einni viku

Þriðja úrræðið, svokallaðir tekjufallsstyrkir, bæti þá tekjufall frá apríl til nóvember á þessu ári. Að hámarki fari 17,5 milljónir til rekstraraðila á tímabilinu.

Gert er ráð fyrir því að takast muni að afgreiða styrki af þessum tveimur gerðum á einni viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert