Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir, spurð hvort til greina komi að setja lög á verkfall flugvirkja hjá ríkinu, að staðan sé í alvarlegri skoðun.
„Þetta stefnir í grafalvarlegt ástand ef það verður ekki samið á næstu dögum og ég bind miklar vonir við það að það verði samið. Flugvirkjum standa til boða sömu launahækkanir og aðrir opinberir starfsmenn hafa fengið. Ég tek alveg undir þau sjónarmið Landhelgisgæslunnar að það gangi ekki að samningur flugvirkja sé beintengdur samningi flugvirkja Icelandair. Þetta er gjörólíkur rekstur við allt aðrar aðstæður,“ segir Áslaug Arna.
Nú liggur fyrir ef marka má orð Georgs Lárussonar, forstjóra Landhelgisgæslunnar, að almannavörnum og sjóöryggi sé ógnað ef engin þyrla verður til taks eins og allt stefnir að í næstu viku. Kemur til greina að setja lög á verkfallið í ljósi þess?
„Við erum að skoða þessa stöðu alvarlega. Það er alveg rétt að þyrlurnar þurfa að vera til taks öllum stundum. Þetta er öryggismál almennings og ekki síst sjófarenda. Ef það hættuástand skapast að þyrlurnar verða ekki til taks. Þá þarf að skoða ýmsar leiðir alvarlega,“ segir Áslaug.
Hún áréttar þó að það sé alvarlegt inngrip en að hlutverk ráðherra sé að tryggja öryggi við leit og björgun. Því verði allra leiða leitað til þess.
Áslaug kynnti stöðuna á fundi ríkisstjórnar í dag. „Svo virðist vera sem samningaviðræður gangi ekki vel. En við bindum engu að síður von við það að þetta leysist. Enda er það skýlaus krafa okkar að Landhelgisgæslan sinni lífsnauðsynlegu hlutverki í öryggi og almannavörnum þjóðarinnar. Sú staða má ekki koma upp að hún geti það ekki,“ segir Áslaug Arna.