Talsverðar framkvæmdir hafa undanfarið staðið yfir hjá Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði. Nýr þurrkari í fiskimjölsverksmiðju fyrirtækisins kom til landsins í vikunni með flutningaskipinu Sun Rio, sem tekur tvo eldri þurrkara með til baka.
Þá er unnið að því að reisa nýja mjölgeymslu og er áætlaður kostnaður við þurrkarann og skemmuna hátt í 400 milljónir, samkvæmt upplýsingum Friðriks Mars Guðmundssonar, framkvæmdastjóra LVF.
Nýi þurrkarinn vegur 100 tonn og var talsvert umstang samfara því að koma honum upp á hafnarbakkann. Þrír öflugir kranar voru notaðir við verkið, sem gekk vel, og nýttu menn sér reynslu frá því að sams konar þurrkari kom til landsins fyrir fjórum árum.
Gömlu þurrkararnir voru keyptir notaðir þegar bræðslan tók til starfa 1996 og eru þeir orðnir rúmlega 40 ára og viðhaldsfrekir. Þeir hafa verið seldir til Marokkó. Þurrkflötur gömlu þurrkaranna var samanlagt 400 fermetrar, en þess nýja 690 fermetrar.