„Þetta skapar mér þá von að botninum sé náð“

Katrín Jakobsdóttir, Bjarni Benediktsson og Ásmundur Einar Daðason á fundinum …
Katrín Jakobsdóttir, Bjarni Benediktsson og Ásmundur Einar Daðason á fundinum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir markmið þeirra viðspyrnuaðgerða sem kynntar voru í dag í Hörpu í dag vera að tryggja að fyrirtæki geti haldið áfram velli þrátt fyrir ástandið og náð svo aftur hraðri viðspyrnu þegar færi skapist. Þá sé líka verið að koma betur til móts við þá sem hafi orðið fyrir því áfalli að missa vinnuna. Hún segir ríkisstjórnina meta það svo að á þessum tímapunkti sé betra að gera meira en minna.

Meðal þess sem kynnt var á fundinum í dag var framlenging á hlutabótaleiðinni og að tekjutengt tímabil atvinnuleysisbóta hefur verið lengt. Þá verða grunnatvinnuleysisbætur hækkaðar, greidd verður eingreiðsla til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega og skerðingarmörk í barnabótakerfinu hækkuð. Þá verður 900 milljónum varið til stuðnings ýmissa viðkvæmra hópa með stuðningi við félagasamtök o.fl.

Katrín Jakobsdóttir á blaðamannafundinum í dag.
Katrín Jakobsdóttir á blaðamannafundinum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín segir í samtali við mbl.is að stærsta verkefnið sé atvinnuleysið, en í nýrri spá Seðlabankans í vikunni var því spáð að atvinnuleysi ætti eftir að hækka á næsta ári og verða 10% að meðaltali yfir árið áður en það lækkar í tæplega 9% árið 2022.

Spurð hvort þær aðgerðir sem kynntar voru í dag séu ákveðin stefnubreyting þar sem í auknum mæli sé horft til þeirra sem hafa misst vinnu frekar en að ýta undir viðspyrnu fyrirtækja segir Katrín að „þetta sé ákveðin jafnvægislist“ og ríkisstjórnin sé að horfast í augu við hvernig veturinn verði. „Það verða hér sóttvarnaráðstafanir í vetur. Þó við sjáum bóluefni fyrir endann á göngunum sem mun breyta öllu, þá verðum við þangað til að búast við sóttvarnaraðgerðum,“ segir Katrín. Þá segir hún aðgerðirnar núna hugsaðar til að skapa ákveðinn fyrirsjáanleika í efnahagslegum- og félagslegum aðgerðum.

Hún segist hins vegar vera bjartsýn á framhaldið. „Ég held að þær fréttir sem við erum að fá, frá fleiru en einu fyrirtæki, sem lofa mjög góðum bóluefnum. Þetta skapar mér þá von að botninum sé náð og núna snúist þetta um að hafa úthald til að ljúka þessu og halda dampi,“ segir Katrín.

Spurð út í þol ríkissjóðs til að halda út með umfangsmiklar aðgerðir sem þessar segir Katrín: „Við metum það þannig að það sé betra fyrir ríkissjóð til lengri tíma að gera meira en minna núna. Við teljum að við eigum enn þá svigrúm, annars værum við ekki að kynna svona aðgerðir og við teljum stöðuna áfram nokkuð góða.“ Bætir hún við að þó að halli ríkissjóðs verði mikill í ár og á næsta ári þá sé staða peningamála góð og friður á vinnumarkaði. „Það styður okkur í að halda þessu áfram og beita ríkisfjármálum af þessum krafti.“

Jólin eru nú framundan og sóttvarnalæknir hefur minnt fólk á að nauðsynlegt sé að fara varlega í öll hátíðahöld. Hvernig sér Katrín hátíðirnar fyrir sér? „Ég held að þetta verði öðruvísi jól. Við erum mörg hver vön því að fara á tónleika og jólahlaðborð. Ef fram heldur sem horfir, en hertar ráðstafanir hafa skilað sér og nýgengi smita hefur farið niður, þá gætu jólin engu að síður orðið gleðileg,“ segir hún.  „Ef  fólk nálgast þetta af skynsemi og fer ekki offari og kallar til mjög fjölmennra samkundna um jólin, þá getum við faðmað ömmu ef við erum svo heppin að eiga eina,“ segir Katrín að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert