„Við erum mjög ánægð með viðbrögð fólks og það hefur sýnt skilning á þeirri stöðu sem við vorum í. Við fengum líka góðar tillögur sem nýtast til úrbóta,“ segir Jón Axelsson, framkvæmdastjóri Skólamatar.
Fyrirtækið er stórtækt á veitingamarkaði og segir Jón að Skólamatur sjái 12.500 manns fyrir mat í hverju hádegi á 60 stöðum. Þegar kynnt var í upphafi mánaðar að skólastarf yrði skert vegna sóttvarnareglna þurfti að endurskipuleggja allt starf fyrirtækisins. Brösuglega gekk í upphafi en Jón segir að nú sé starfsemin komin í réttan farveg á ný.
„Við fengum að vita á sunnudegi að ekki væri hægt að skammta mat í matsal daginn eftir eins og verið hafði. Þá þurftum við að leggja hausinn í bleyti með okkar fólki og redda matarbökkum. Þetta gekk ekki nógu vel fyrsta daginn en svo tókum við næsta skref og náðum hægt og rólega tökum á ástandinu. Í dag fá nær allir matinn skammtaðan á disk en ekki í bakka. Misjafnt er þó eftir skólum hvort borðað er í skólastofunni eða í matsal,“ segir framkvæmdastjórinn í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.