„Kirkjan er opin og kemur til þín“

Úr myndbandi Grafarvogskirkju.
Úr myndbandi Grafarvogskirkju. Skjáskot/Grafarvogskirkja

Kirkjustarf hefur ekki farið varhluta af kórónuveirufaraldrinum, frekar en aðrir kimar samfélagsins og ástandið kallar á skapandi lausnir í safnaðarstarfinu. „Kirkjan er opin, en nú förum við til fólksins í stað þess að það fari til okkar,“ segir Guðrún Karls Helgudóttir sóknarprestur í Grafarvogskirkju.

Kirkjan birti í gær lag á Facebook-síðu sinni þar sem þessi skilaboð eru ítrekuð á skemmtilegan máta. Lagið er erlent en textinn verk Guðrúnar.

„Þessir undarlegu tímar kalla fram einhvern sköpunarkraft og okkur langaði að gera eitthvað nýtt og skemmtilegt úr þessu,“ segir Guðrún í samtali við mbl.is spurð út í kveikjuna að laginu.

Stór hópur fólks tekur þátt í söngnum. „Þetta er fólk úr alls konar hópum. Prestarnir allir og fólk úr öllum þremur kórunum okkar og safnaðarstarfinu, bæði eldri borgara starfi og æskulýðsstarfinu,“ segir Guðrún.

Hún segir töluverða skipulagningu vera á bak við myndbandið, enda tíu manna samkomubann í gildi þegar það var tekið upp. „Það þurfti að taka þetta upp í nokkrum hollum.“

Prestar verða sjónvarpsprédikarar

Eina starf kirkjunnar sem liggur niðri vegna faraldursins er einmitt kórastarfið og því kærkomið fyrir kórbörnin að fá að koma saman og vinna að laginu. Öðru kirkjustarfi er haldið úti en í öðru formi. Þannig fara fermingarfræðsla og æskulýðsfundir nú fram í gegnum Zoom og barnastarfið hefur einkennst af ratleikjum fyrir utan kirkjuna.

Messað er tvisvar í viku og sent út á netinu.Guðrún segir að sumu leyti sé meira álag í því formi, að þurfa alltaf að vera skapandi og finna upp á einhverju nýju. „Allt í einu þurfa prestar að vera einhverjir sjónvarpsprédikarar. Fólki finnst það misþægilegt,“ segir Guðrún.

Fyrir vikið eru messur mun einfaldari en venjulega. „Við leggjum áherslu á boðskapinn og erum með örstuttar, einfaldar helgistundir.“ Ýmsir fastir liðir falla brott, þeirra á meðal vitaskuld altarisgangan.

Guðrún segir prestana þegar vera farna að búa sig undir að jólahaldið verði á netinu. Jafnan eru kirkjur landsins fullar á aðfangadag og um 700 manns sem mæta í messu á aðfangadag.

Hún er heldur ekki of bjartsýn á að messuhald geti farið fram með hefðbundnum hætti fyrir jólin. „Til að við getum haldið einhverjar messur með hefðbundnum hætti þurfa takmörkin að fara upp í 100 manns eða jafnvel 200. Það er svo leiðinlegt að þurfa að vísa einhverjum frá.“

Guðrún Karls Helgudóttir ásamt Vigfúsi Þór Árnasyni. Myndin var tekin …
Guðrún Karls Helgudóttir ásamt Vigfúsi Þór Árnasyni. Myndin var tekin þegar sá síðarnefndi settist í helgan stein eftir 27 ár í starfi. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert