Lífshorfur fólks á Norðurlöndum sem fær krabbamein eru með þeim bestu í heiminum og hafa batnað á síðustu 25 árum. Þetta kemur fram í nýrri samanburðarrannsókn sem byggð er á gögnum úr krabbameinsskrám á Norðurlöndum.
Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins, sagði að krabbameinsáætlanir hefðu gefið góða raun annars staðar á Norðurlöndum. Ein slík var samþykkt hér og innleidd í upphafi síðasta árs.
„En mér vitanlega er ekki búið að forgangsraða ákveðnum markmiðum í krabbameinsáætluninni, tímasetja þau og fjármagna. Ef ekki er gerð aðgerðaáætlun þá er þetta til lítils,“ segir Halla í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.