„Mér finnst þetta líta ágætlega út. Það er gott að það séu bara tveir fyrir utan sóttkví, sem er mælikvarði á samfélagssmit. Sömuleiðis er jákvætt að allir þessir einstaklingar sem greindust eru með lögheimili á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir um fjölda smita í dag.
Fimmtán kórónuveirusmit greindust innanlands í gær. Átta greindust við einkennasýnatöku Íslenskrar erfðagreiningar og Landspítalans en sjö smit við sóttkvíarsýnatöku. Þrettán voru í sóttkví við greiningu, eða tæp 87%.
Fá smit hafa greinst hér á landi undanfarna daga og svo virðist sem faraldurinn sé í mikilli rénun. Aðspurður segir Þórólfur að aflétting ákveðinna takmarkana hafi komið til tals. Slíkt fari þó alfarið eftir því hvernig faraldurinn þróast næstu viku eða svo.
„Það er reglugerð í gildi til 2. desember og við erum að skoða hvað tekur við þá. Það fer auðvitað eftir því hvernig þróunin á þessu verður. Það getur margt breyst, til dæmis getur orðið bakslag einn, tveir og þrír.“
Nú er í undirbúningi litakóðakerfi sem gefa mun vísbendingu um hvaða reglur verða í gildi hverju sinni. Þá segir Þórólfur ljóst að takmarkanir verði áfram í gildi eða allt þar til gott bóluefni er komið í gagnið. Morgunblaðið greindi frá því í vikunni að það kunni að vera í janúar eða febrúar á næsta ári.
Aðspurður segist hann ekki vilja nefna neina dagsetningu í því samhengi. Hins vegar verði áhersla lögð á að halda faraldrinum niðri þangað til. „Ég bind vonir við að þetta verði á fyrri hluta næsta árs. Ef það er snemma þá er það frábært. Við þurfum að halda faraldrinum niðri þangað til, við viljum ekki missa hann áður en bóluefnið kemur.“