„Kanaríeyjar eru öruggar og ferðavilji fólks er alveg greinilegur,“ segir Þráinn Vigfússon, framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar VITA. „Við höldum okkar striki og verðum með þrjár ferðir fyrir jólin; tvær til Tenerife og eina til Gran Canaria, og er mikill áhugi á ferðunum.“
Hópurinn sem ætlar út er á bilinu 350-400 manns, að sögn Þráins. „Gjarnan er þetta fólk sem ætlaði með okkur í vetur í ferðum sem var aflýst þegar kórónuveiran var farin af stað, en jólin eru alltaf vinsælust á Kanaríeyjunum enda eini staðurinn í Evrópu þar sem sumar og sól er á þessum árstíma,“ segir Þráinn.
„Á Kanaríeyjum hefur tekist að halda veirunni í skefjum og staðan er allt önnur en á meginlandi Spánar. Á eyjunum er nú í sólarfríi mikill fjöldi fólks víða að úr Evrópu, m.a. frá Norðurlöndunum. Allt gengur vel með góðum smitvörnum, grímuskyldu og fleiru slíku.“
Sem stendur liggja allar ferðir VITA til Kanarí niðri, en jólaferðirnar marka nýtt upphaf, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.