Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir margt við frumvarp til breytingar á sóttvarnalögum sem dreift var til Alþingis í dag vekja upp spurningar. „Það er kannski spurning hvort að verið sé að skjóta lagastoðum undir aðgerðir sem þegar er búið að grípa til,“ segir Sigríður.
Frumvarpið var samið af starfshópi sem heilbrigðisráðherra skipaði í september. Var frumvarpið samið í þeim tilgangi að skýra ákvæði laganna um opinberar sóttvarnaráðstafanir á grundvelli fenginnar reynslu af heimsfaraldri kórónuveirunnar.
„Þetta var afgreitt í dag til þinglegrar meðferðar og ég held að það kalli á verulega yfirlegu, það eru mörg nýmæli þarna sem kalla á ýmsar spurningar,“ segir Sigríður. Hún segir að margt í frumvarpinu bendi til þess að verið sé að renna lagastoð undir aðgerðir sem þegar hefur verið gripið til í tengslum við kórónuveirufaraldurinn.
„Það er svona tvennt kannski sem vekur upp spurningar. Annars vegar hvort að í ljósi þessara breytingartillagna sem hérna eru gerðar sem ráðherra telur nauðsynlegar, hvort að það sé mögulega þannig að sumar þessara aðgerða hafi ekki haft nægjanlega lagaheimild. Heilbrigðisráðherra hefur sagt að hún telji lagaheimildina fyrir hendi, en þó eru að minnsta kosti einhverjar vísbendingar í þessu frumvarpi að menn telji lagaheimildina ekki vera fyrir hendi,“ segir Sigríður.
Sigríður segir enn fremur að skoða verði hvernig frumvarpið samrýmist stjórnarskránni.
„Svo er það hitt að löggjafanum er, rétt eins og framkvæmdavaldinu, settar ákveðnar takmarkanir á því hvað sé hægt að setja í lög. Lagaheimild sem á að skerða mjög borgaraleg réttindi þarf að vera mjög skýr og afmörkuð, en ekki bara almenn og opin. Það er þarna til dæmis verið að kynna til sögunnar útgöngubann sem eitt tæki sóttvarnalæknis. Þá myndi ég halda að við þinglega meðferð þurfi menn að velta því fyrir sér hvort að það geti verið svona opið ákvæði um útgöngubann. Það eru ýmis atriði í þessu frumvarpi sem ég vænti að þingið taki til mikillar efnislegrar umfjöllunar,“ segir Sigríður.