Ökumaður fólksbíls sem hafnaði utan vegar við bæinn Ytri-Bægisá í Hörgársveit í byrjun mánaðarins og brann hefur réttarstöðu sakbornings. Grunur leikur á um að bílnum hafi verið ekið yfir löglegum hámarkshraða.
Rúv greinir frá.
Sambýlisfólk var í bílnum, maður og kona á þrítugsaldri. Manninum tókst að komast út úr bílnum af sjálfsdáðum en konan vankaðist og þurfti að hjálpa henni út.
Engin hálka var á svæðinu og akstursskilyrði góð þegar slysið varð. Af ummerkjum á vettvangi og framburði vitna að dæma bendir margt til þess að bifreiðinni hafi verið ekið of hratt. Verður ætlaði hraði bílsins reiknaður út með aðstoð sérfræðings.