Bóluefni AstraZeneca og Oxford-háskóla veitir um 90% vörn gegn kórónuveirunni ef það er gefið í réttum skömmtum, að sögn Ingileifar Jónsdóttur, prófessors í ónæmisfræði. Enginn þeirra sem bólusettur var með bóluefninu þurfti að leggjast inn á spítala eða varð alvarlega veikur vegna Covid-19.
Ingileif segir kosti bóluefnisins marga, t.a.m. hafi AstraZeneca gefið það út að bóluefnið verði selt á kostnaðarverði og bóluefnið sé auðvelt að geyma en það er hægt að geyma í venjulegum ísskáp í sex mánuði. Því getur verið að bóluefnið henti fátækari löndum sérstaklega vel.
Ísland hefur nú þegar tryggt sér aðgang að bóluefninu sem og þremur öðrum í gegnum samning Evrópusambandsins sem landið er aðili að. Hvert og eitt land þarf þó að semja við hvern framleiðanda um magn bóluefnis.
Í rannsóknum á bóluefnum er alltaf miðað við að einhverjir veikist þrátt fyrir að vera bólusettir. Rannsókn AstraZeneca var gerð á 23.000 manns, bæði í Brasilíu og Bretlandi. 191 þeirra veiktist af Covid-19.
„Enginn af þeim sem er bólusettur hefur lagst inn á spítala eða orðið alvarlega veikur af Covid. Það eru góðar niðurstöður. Annað sem er líka mikilvægt er að það fylgja engar alvarlegar aukaverkanir bóluefninu,“ segir Ingileif í samtali við mbl.is og áréttar að engar alvarlegar aukaverkanir fylgi bóluefnunum frá Moderna og Pfizer heldur.
Þátttakendum í rannsókn AstraZeneca voru gefnir mismunandi skammtar. Sumir fengu einn skammt, aðrir tvo og enn aðrir fyrst hálfan skammt og svo heilan.
„Niðurstöðurnar sýna fram á 90% vernd hjá þeim sem fengu fyrst hálfan skammt og svo heilan en 62% vernd hjá þeim sem fengu tvisvar sinnum heilan skammt,“ segir Ingileif sem bendir á að bóluefnið sé því mjög verndandi sé það gefið í réttu magni.
„Í raun eru þetta mjög góðar fréttir, þarna bætist við eitt öruggt bóluefni sem er mjög verndandi þótt það sé ekki alveg jafn verndandi og bóluefnin frá Moderna og Pfizer. Þetta segir manni líka að það hvernig bóluefnið er gefið getur haft heilmikil áhrif á niðurstöðuna. Þeir eru þá að minnsta kosti búnir að sýna það að það er hægt að gera það og ná verndinni upp í 90% u.þ.b.“
AstraZeneca óskar nú eftir neyðarskráningu og ætlar að ráðast í mikla framleiðslu.
„Þeir segjast geta framleitt hundruð milljóna skammta mjög fljótt og stefna að því að fá sérstaka skráningu hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni til þess að framleiða fyrir fátæk lönd,“ segir Ingileif.
Eins og áður segir hefur Ísland nú aðgang að fjórum bóluefnum í gegnum Evrópusambandið, þar á meðal umræddu bóluefni frá AstraZeneca. Ingileif segir óljóst hvort Íslendingar fái nokkrar tegundir bóluefna eða bara eina. Það geti t.d. farið eftir framleiðslugetu.
„Það skiptir ekki öllu hvort við fáum fleiri en eitt eða fleiri en tvö. Aðalmálið er að tryggja sér aðgang að fleirum því við vitum ekki fyrir fram hver þeirra reynast örugg og virk sem öll þessi þrjú sem búið er að segja frá eru. Þetta eru allt mjög góðar niðurstöður. Nákvæmlega hvað við fáum mikið af hverju eða hvaða bóluefni við fáum held ég að sé of snemmt að segja.“
Ekki er um að ræða mRNA-bóluefni eins og hjá Pfizer.
„Þetta er svokölluð veiruferja, kvefveira sem er búin að gera skaðlausa þannig að hún geti sýkt frumur mannsins en ekki fjölgað sér. Hún er þá með gen sem er sams konar og mRNA-bóluefnið en það er bara sett inn í þessa veiruferju sem flytur það svo inn í frumur. Menn eiginlega áttu frekar von á að þetta myndi vekja betra ónæmissvar en maður veit aldrei fyrr en búið er að prófa,“ segir Ingileif.
AstraZeneca mun svo halda rannsóknum áfram í Rússlandi, Japan, Suður-Afríku og Kenýa og verða þátttakendur í rannsókninni, ef allt gengur eftir, því 60.000 talsins.