Hjörleifshöfði ekki í forgangi og of dýr

Hjörleifshöfði á Mýrdalssandi var seldur fyrir hundruð milljóna.
Hjörleifshöfði á Mýrdalssandi var seldur fyrir hundruð milljóna. mbl.is/Jónas Erlendsson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að Hjörleifshöfði hafi ekki verið í efsta forgangsflokki þeirra jarða sem ríkinu standa til boða að festa kaup á. Þá bar „allt of mikið í milli í kaupverði,“ að sögn Katrínar. 

Vísir greindi frá því í gær að íslenskir og erlendir ríkisborgarar hefðu fest kaup á Hjörleifshöfða í Mýrdalshreppi. Jörðin fór á hundruð milljóna króna en hún er rúmlega ellefu þúsund hektara stóð. Nýir eigendur hyggjast áforma vikurnám á jörðinni. Í frétt Vísis kom fram að fyrri eigendur hefðu boðið þremur ríkisstjórnum höfðann, þar á meðal ríkisstjórn Katrínar. 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Enginn opinn tékki hjá ríkinu

Í samtali við mbl.is segir Katrín að þeir hafi vissulega boðið ríkisstjórninni höfðann en segir að ríkinu standi mjög reglulega til boða að kaupa ýmsar jarðir. 

„Ráðuneytið er með ákveðinn samráðshóp sem metur mikilvægi þessara jarða t.d. út frá náttúruverndarsjónarmiðum, menningarminjum eða einhverju öðru sem getur skipt máli. Þar er þessi jörð ekki í efsta forgangsflokki. Eigi að síður þá var lögfræðingur forsætisráðuneytisins í sambandi við þessa aðila sem eiga þessa jörð og þá var bara ljóst að það bar allt of mikið í milli í kaupverði svo það kom einfaldlega ekki til greina,“ segir Katrín. 

Hún hefur beitt sér gegn samþjöppun á eignarhaldi lands á Íslandi, að eigin sögn. 

„Þó ég hafi beitt mér gegn samþjöppun á eignarhaldi lands þá þýðir það ekki að það sé opinn tékki hjá ríkinu fyrir hvern sem er og það kaupi allar jarðir. Pólitíkin hjá mér snýst bara um það að við séum búin að setja þennan almenna lagaramma utan um eignarhald á landi sem er auðvitað mjög mikilvægur en ég er ekki á þeim stað að ég telji að ríkið eigi að kaupa allar þær jarðir sem því standa til boða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert