Nýtt litakóðakerfi líklega kynnt á föstudag

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Almannavarnir vonast til að kynna nýtt litakóðakerfi til sögunnar á föstudaginn sem á gefa til kynna hvaða sóttvarnareglur eru í gildi hverju sinni.

Kerfið á einnig að sýna hver næstu skref verða ef hert eða slakað verður á aðgerðum. Þannig á það að auka fyrirsjáanleikann vegna kórónuveirufaraldursins, að sögn Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns.

Verið er að leggja lokahönd á kerfið í þessari viku. Það verður þróað inn í ýmsa starfsemi, meðal annars hjá Íþróttasambandi Íslands vegna íþrótta og hjá menntamálaráðuneytinu vegna skólastarfs. Gagnvart almenningi er unnið að viðbót sem á að að birtast á netinu.

Horft til reynslu Veðurstofu Íslands

Víðis segist vera spenntur fyrir því að sjá hvaða áhrif þetta nýja kerfi hefur og segir að önnur lönd hafi ekki gert þetta á samskonar hátt. Íslenska kerfið verður meira með fljótandi hætti, svipað eins og spáð er fyrir veðri og hefur verið horft á reynslu Veðurstofu Íslands af kerfinu sem hún notast við. „Það þarf að vera ákveðinn sveigjanleiki til að þetta virki og þetta á að gefa skarpari upplýsingar,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert