Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og Sjómannafélag íslands lýsa yfir áhyggjum sínum á þeirri stöðu sem komin er upp vegna kjaradeilu flugvirkja við Landhelgisgæslu Íslands. Skorað er á ríkið að leita allra leiða til að ganga frá samningum hið fyrsta.
LSS bendir á að samgöngur hér á landi séu oft erfiðar og tímafrekar yfir vetrarmánuðina. Ef bráð veikindi eða slys bera að höndum er mikilvægt að keðja neyðarþjónustu heilbrigðiskerfisins utan spítala sé sterk og þar spila þyrlur Landhelgisgæslunnar afar mikilvægt hlutverk fyrir stóran hluta landsins og er ómissandi fyrir sjófarendur.
LSS skorar á samninganefnd ríkisins að leita allra leiða til að ná samningum við flugvirkja Landhelgisgæslunnar og koma í veg fyrir grafalvarlegt ástand sem skapast þegar keðja neyðarþjónustu er rofin.
Sjómannafélag Íslands, Félag vélstjóra og málmtæknimanna og Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur telja að öryggi sjófarenda og landsmanna sé stefnt í hættu við þær aðstæður sem nú eru upp komnar.
Jafnframt lýsa félögin yfir fullum stuðningi við flugvirkja í sinni kjaradeilu og skora á ríkið að ganga frá samningi við þá strax.
Félögin segja framgöngu Landhelgisgæslunnar gagnvart starfsstéttum á skipum Gæslunnar til háborinnar skammar og hefur stofnunin sýnt þeim mikla vanvirðingu með mismunun á kjörum þar sem óskýrir hagsmunir séu hafðir í forgangi í gerð kjarasamninga.