Vonar að Munasafnið færi aukið líf á Laugaveg

Anna De Matos er ánægð með að Munasafnið hafi fengið …
Anna De Matos er ánægð með að Munasafnið hafi fengið húsnæði á Laugavegi og horfir björt fram veginn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég held að þessi staðsetning henti mörgum sem nota þjónustuna betur,“ segir Anna De Matos, stofnandi og framkvæmdastjóri Munasafns Reykjavíkur, sem opnað var við Laugaveg 51 á dögunum.

Munasafnið var fyrst opnað úti á Granda árið 2018 og starfsemi þess mæltist vel fyrir en kórónuveiran setti strik í reikninginn fyrr á árinu. „Við gátum ekki borgað leiguna þar og urðum að flytja,“ segir Anna. Í fyrstu fékk Munasafnið aðstöðu í kjallaranum á Laugavegi 51 en svo náðust hagstæðir samningar við leigusala um að taka einnig við aðalhæðinni. Anna segir í samtali við Morgunblaðið að hún vonist til að starfsemi Munasafnsins hjálpi til við að lífga upp á Laugaveginn og hvetur fleiri grasrótarsamtök og -fyrirtæki að flytja starfsemi sína þangað. Ljóst sé þó að húsaleiga þurfi að lækka á svæðinu.

Fjöldi verkfæra er á Munasafninu.
Fjöldi verkfæra er á Munasafninu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Munasafn Reykjavíkur er einnig þekkt sem Reykjavík Tool Library. Anna segir að um félagasamtök sé að ræða sem byggi á hugmyndafræðinni um deilihagkerfið. Hún líkir starfseminni við bókasafn nema fyrir verkfæri og ýmsa aðra hluti. „Þó þú eigir ekki hlutina þarftu samt að nota þá,“ segir Anna og útskýrir að gegn vægu félagsgjaldi geti fólk fengið lánuð verkfæri, útilegutól eða jafnvel súpupott og Kitchen Aid-hrærivél fyrir veisluna.

„Þannig minnkum við sóun, nýtum betur það sem er nú þegar til og stuðlum að frekari sjálfbærni og grænni þróun samfélagsins,“ segir hún. Starfsemin er ekki í hagnaðarskyni og það sem afgangs er nýtist í svokölluð viðgerðarkvöld sem haldin eru mánaðarlega. Þá getur fólk komið með muni og hjálpast að við endurbætur á þeim.

Í tilkynningu kemur fram að Munasafn Reykjavíkur mun einnig bjóða upp á samvinnurými fyrir sprotafyrirtæki og aðgengi að framleiðslurými með stærri og sérhæfðari verkefnum og vöruþróun. Þar að auki verður sýningarrými og aðgengi að sýningarplássi á besta stað á Laugaveginum sem hægt er að leigja til þess að kynna vörur og selja.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert