Byggja nýtt 64 rýma hjúkrunarheimili

Þjónustumiðstöð er í brúna húsinu og mun nýtt hjúkrunarheimili tengjast …
Þjónustumiðstöð er í brúna húsinu og mun nýtt hjúkrunarheimili tengjast því. Ljósmynd/Hrafnista

Samningur um byggingu 64 rýma hjúkrunarheimilis í Boðaþingi var samþykktur í bæjarstjórn Kópavogs í gær. Allir greiddu atkvæði með tillögunni, en miðað er við að framkvæmdir hefjist í ársbyrjun 2022. 

„Bæjarstjórn Kópavogs lýsir yfir ánægju með að loks skuli vera að komast á samningur milli Kópavogsbæjar og heilbrigðisráðuneytisins um byggingu 64 hjúkrunarrýma við Boðaþing. Hjúkrunarrýmin eru kærkomin viðbót við þau 44 hjúkrunarrými sem ríkið rekur nú þegar í Boðaþingi og koma til með að leysa úr brýnni þörf fjölda þeirra sem eru á biðlista eftir hjúkrunarrýmum,“ segir í sameiginlegri bókun bæjarstjórnar.   

Vonir eru bundnar við að heimilið verði komið í gagnið á fyrsta ársfjórðungi ársins 2024. Áætlaður kostnaður vegna byggingu hjúkrunarheimilisins eru rúmir þrír milljarðar og skiptist kostnaðurinn þannig að 85% greiðist úr ríkissjóði en 15% af Kópavogsbæ.

Að auki leggur Kópavogsbær til lóð undir hjúkrunarheimilið að verðmæti um 100 milljónir. Nýja byggingin mun tengjast þjónustumiðstöðinni í Boðaþingi sem bærinn byggði og rekur í samstarfi við ríkið og rekstraraðila Boðaþings.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert