„Samanburður við hin norrænu löndin sýnir að við erum með mestu raunlaunahækkun á árinu þrátt fyrir að vera einnig með mesta atvinnuleysið og dræmustu hagvaxtarhorfurnar,“ segir Anna Hrefna Ingimundardóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.
Mikil hækkun varð á launavísitölu í október. Vísitalan hækkaði um 0,7% milli september og október samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Síðustu 12 mánuði hefur launavísitalan hækkað um 7,1% en það er mesta ársbreyting frá því í apríl árið 2018. Þessar tölur rýma illa við áhrif kórónuveirunnar sem hafa leitt til mikils tekjufalls og atvinnuleysis.
Anna Hrefna segir að í löndum þar sem þátttaka í stéttarfélögum sé mun minni en hér megi sjá áhrif kórónukreppunnar endurspeglast betur í rauntíma í mismunandi atvinnugreinum. „Laun á markaði hér hafa ekki aðlagast aðstæðum,“ segir hún.
Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, segir í viðtali í ViðskiptaMogganum í dag að launahækkanir séu meginorsök þess að Keflavíkurflugvöllur sé ekki samkeppnishæfur. „Launakostnaður er tveir þriðju hlutar af okkar rekstrarkostnaði.“