Þyrlur ekki til taks í fyrsta vetrarstorminum

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir það kaldhæðni örlaganna að á sama tíma og varað sé við fyrsta vetrarstorminum séu björgunarþyrlur Landhelgisgæslunnar ekki til taks.

Gular og appelsínugular viðvaranir vegna veðurs taka gildi í kvöld á stórum hluta landsins en frá og með miðnætti, og næstu tvo sólarhringa, verður engin þyrla Landhelgisgæslunnar til taks vegna verkfalls flugvirkja og viðhalds.

Þetta á einfaldlega ekki að geta gerst, herra forseti, og mikil er ábyrgð ríkisvaldsins. Það á ekki að geta gerst að kerfið sé ekki til staðar þegar við þurfum á því að halda. Það er ekkert sem réttlætir það að björgunarþyrlur séu ekki tiltækar,“ sagði Albertína á þingi í dag.

Hún benti á að á síðasta ári hafi Gæslan farið í um 280 útköll. Tveir þriðju hlutar þeirra voru vegna alvarlegra slysa eða veikinda og þriðjungur vegna björgunaraðgerða.

„Það þýðir að það eru um 63% líkur á útkalli næstu tvo daga. Þetta er ekki ásættanlegt og kallar á heildarumræðu um hvernig við stöndum að almannavörnum í landinu. Við búum í dreifbýlu landi með fjölmörgum fjallvegum. Við búum í landi sem byggir á sjósókn og ef vel ætti að vera ættum við að hafa a.m.k. þrjár þyrlur til taks. Þá verðum við að spyrja okkur hvort eðlilegt sé að allt viðbragðskerfið sé staðsett á höfuðborgarsvæðinu og skoða það vandlega hvort réttast væri að dreifa þyrlunum um landið til að stytta viðbragðstíma þeirra,“ sagði Albertína.

„Það má kalla það kaldhæðni örlaganna að í kvöld er varað við fyrsta vetrarstorminum. Viðvaranir Veðurstofunnar hafa eflaust vakið ugg í brjósti þeirra fjölmörgu sem lifðu storm eftir storm síðasta vetur og óttast eðlilega það versta. Staðan er einföld, herra forseti. Þetta snýst ekki aðeins um kaup og kjör. Þetta er dauðans alvara. Ráðherra verður að finna lausn á þessu máli, ekki seinna en núna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert