Samninganefndir flugvirkja og ríkisins sitja enn á fundi hjá ríkissáttasemjara en fundur í kjaradeilunni hófst klukkan níu í morgun.
Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari staðfestir við mbl.is að enn sé fundað en gefur ekkert upp hvernig fundahöld gangi.
Náist ekki samkomulag í kjaradeilu flugvirkja Landhelgisgæslunnar mun ekkert loftfar Gæslunnar verða til taks eftir 14. desember. Fram að því verður viðbragðsgetan einnig mjög skert því einungis ein þyrla verður tiltæk og mikil óvissa mun ríkja um lofthæfi hennar.
Jafnvel þótt verkfallinu lyki í þessari viku yrðu tvær þyrlur tiltækar í aðeins tíu daga í desember. Ljóst er því að áhrifa verkfallsins muni gæta næstu vikur og mánuði, samkvæmt svari Ásgeirs Erlendssonar, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar, við fyrirspurn Morgunblaðsins í gær.