„Það skýtur svolítið skökku við að miðað við löggjöfina um Landhelgisgæsluna að flugvirkjar geti haft þessi áhrif á öryggi almennings,“ sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra þar sem hún svaraði spurningum í opnu streymi á Facebook-síðu Sjálfstæðisflokksins.
Samninganefndir flugvirkja og ríkisins funda í húsakynnum Ríkissáttasemjara en engin björgunarþyrla er til taks á landinu í dag og á morgun.
Áslaug Arna sagði að verkföll ættu ekki að hafa áhrif á öryggi almennings.
Rætt hefur verið um að setja lögbann á verkfall flugvirkja en Áslaug sagðist hafa reifað ýmsa kosti í stöðunni en ekki sé hægt að koma í veg fyrir þyrluleysið í dag og á morgun.
Náist ekki samkomulag í kjaradeilu flugvirkja Landhelgisgæslunnar mun ekkert loftfar Gæslunnar verða til taks eftir 14. desember. Fram að því verður viðbragðsgetan einnig mjög skert því einungis ein þyrla verður tiltæk og mikil óvissa mun ríkja um lofthæfi hennar.
„Það er unnið að þessu hratt og hver dagur skiptir máli,“ sagði ráðherra.