Embætti forsetaritara auglýst laust

Bessastaðir
Bessastaðir mbl.is/Hjörtur

Embætti forsetaritara er í dag auglýst laust til umsóknar í Morgunblaðinu, en Örnólfur Thorsson mun á næsta ári hverfa til annarra starfa.

Í auglýsingunni kemur fram að forsetaritari stýri embætti forseta Íslands undir yfirstjórn forseta. Felur það meðal annars í sér stjórn fjármála, mannauðs og daglegum störfum á skrifstofu forseta og Bessastöðum. Þá annast forsetaritari samskipti við Alþingi, ráðuneyti, fjölmiðla og sendiherra erlendra ríkja.

Æskilegar hæfniskröfur eru háskólamenntun sem nýtist í starfi, fjölþætt reynsla af stjórnun, störf á alþjóðavettvangi, mannauðsstjórnun og stefnumótun, leiðtogahæfni og færni í mannlegum samskiptum. Þá er staðgóð þekking á íslenskri stjórnskipun og stjórnskipun sögð æskileg. Umsækjendur skulu hafa afar gott vald á íslenskri og enskri tungu í ræðu og riti, auk færni í a.m.k. einu öðru Norðurlandamáli.

Í samtali við mbl.is staðfestir Örnólfur að hann mun hverfa til annarra starfa eftir 21 ár hjá embættinu. Lýkur hann störfum 1. mars á næsta ári, en Örnólfur segist verða nýjum forsetaritara innan handar til 1. ágúst.

Örnólfur var ráðinn sem sérfræðingur á skrifstofu forseta árið 1999, en var skipaður forsetaritari árið 2005.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert