Frétt um smit í Kringlunni „skot í myrkri“

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar- og þjónustu.
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar- og þjónustu. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þetta var algjörlega skot í myrkri hjá lögreglunni,“ segir Andrés Magnússon, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka versl­un­ar og þjón­ustu, um meint kórónuveirusmit í Kringlunni í gær.

Greint var frá smitinu á ýmsum fréttamiðlum eftir upplýsingafund almannavarna í gær en það leiðrétt um miðjan daginn. Misskilningur átti sér stað en smit kom upp í skrif­stofu­hús­næði sam­byggðu Kringl­unni en ekki í versl­un­ar­rými Kringl­unn­ar. 

„Lögreglan og sóttvarnayfirvöld verða að gæta þess mjög vel hvernig þau haga sínum ummælum. Þetta hefur áhrif og á svona tímum skiptir máli hvað er sagt,“ segir Andrés.

Hann segist hafa ítrekað bent á að ekkert sé tekið tillit til stærðar húsnæðis í sóttvarnaaðgerðum. 50 manns megi vera inni í pínulitlu apóteki en tíu manns inni í risastórum verslunum sem selja ekki mat eða lyf.

„Við vitum ekki nein dæmi um að það hafi komið upp sýking í verslun. Engu að síður eru þessar þröngu takmarkanir settar á greinina á þessu mikilvæga tímabili ársins,“ segir Andrés.

Hann segir því hafa skotið niður í kollinn á einhverjum að yfirvöld segðu frá meintu smiti til að senda verslunarmönnum, sem hafa kvartað undan sóttvarnaaðgerðum, ákveðna pillu.

„Það fór allt á flug í kringum okkur hvar smitið væri en svo kom auðvitað fljótt í ljós að þetta var ekki í verslunarhúsnæðinu,“ segir Andrés og ítrekar að fólkið sem er í framlínu sóttvarnaaðgerða beri mikla ábyrgð og orð þess hafi mikil áhrif.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert