Ljósin á Cuxhaven-jólatrénu voru tendruð í Jólaþorpinu í Hafnarfirði í morgun klukkan 9 af Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra Hafnarfjarðar, Dietrich Becker sendiherra Þýskalands á Íslandi og Gísla Valdimarssyni formanni vinabæjarfélagsins Hafnarfjörður-Cuxhaven að viðstöddum hópi leikskólabarna.
Tendrun ljósa á trénu hefur til þessa verið formleg og athöfnin opin öllum en í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu var tendrunin í ár fámenn og góðmenn.
Jólaþorpið í Hafnarfirði hefur risið í vikunni og verður laugardagurinn 28. nóvember fyrsti dagur opnunar þetta árið. Jólaþorpið verður opið frá kl. 13-18 alla laugardaga og sunnudaga á aðventunni.