Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir að einhugur hafi verið í ríkisstjórninni um að leggja fram í þinginu frumvarp til þess að stöðva verkfall flugvirkja Landhelgisgæslunnar. Hún telur eðlilegt að ríkissáttasemjari fái heimild til frestunar verkfalla.
„Það var samstaða um málið. Tvennt kemur til. Ríkissáttasemjari lagði fram tillögu þar sem flugvirkjum var boðið að halda tengingu við Icelandair samningana í tveggja ára skammtímasamningi. Því var hafnað af hálfu flugvirkja en samþykkt af samninganefnd ríkisins. Því leit ég svo á að þetta væri fullreynt,“ segir Katrín.
Hún segir að hin forsendan hafi verið sú að ekki hafi verið til taks flughæf þyrla og það sé ábyrgðarhluti stjórnvalda að björgunargeta sé til staðar hvort sem það er á sjó eða landi.
Þyrla hefur ekki verið til taks fyrir björgunarstörf síðan á miðvikudag og ef að líkum lætur verður ekki búið að sinna viðhaldi fyrr en á sunnudag í fyrsta lagi ef marka má orð Georgs Lárussonar, forstjóra Landhelgisgæslunnar.
Í ljósi þess koma þessi lög ekki of seint?
„Við viljum leysa deilur við samningaborðið og raunar finnst mér ljóður á okkar kerfi að ríkissáttasemjari hafi ekki heimild til þess að fresta verkföllum. Slíkar heimildir hafa sáttasemjarar víða á Norðurlöndunum svo dæmi sé tekið. Því er gripið inn í með þessum hætti þó það sé aldrei æskilegt. Það var ekki ljóst fyrr en eftir tillögu ríkissáttasemjara í gær að málið var fullreynt,“ segir Katrín.
Spurð hvort að ekki sé eðlilegt að veita ríkissáttasemjara þá heimild í ljósi orða hennar þá telur Katrín að svo sé. Unnið sé að grænbók um vinnumarkaðsmál og á hún von á því að málið verði tekið fyrir. „Ég myndi telja þetta eðlilega breytingu. Kannski hefur tregðan hingað til verið sú að fólk hefur viljað horfa á stóru myndina í stað þess að gera einstaka breytingu á lögunum. Það er sú vinna sem nú fer fram í forsætisráðuneytinu,“ segir Katrín.