Segir Þórólf hafa fóbíu fyrir líkamsræktarstöðvum

Björn Leifsson eigandi World Class.
Björn Leifsson eigandi World Class. mbl.is/Hari

Björn Leifsson eigandi World Class segir Þórólf Guðnason sóttvarnalækni tala á þann hátt að hann hafi einhverja fóbíu fyrir líkamsræktarstöðvum. Björn hefur verið gagnrýninn á sóttvarnarráðstafanir og lokanir heilsurækta og segir þær í andstöðu við að halda heilsu landans góðri.

„Mér finnst einhvernvegin eins og hann persónulega sé á móti líkamsræktarstöðvum. Hann sagði meira að segja að líkamsræktir væru upprunni smita, þannig að mér finnst skrítið að það skuli vera smit út um allt þrátt fyrir að líkamsræktarstöðvar skuli vera lokaðar,“ segir Björn í samtali við mbl.is

Tók lán fyrir milljarð

Björn segir tekjufall World Class frá upphafi faraldursins vera 1,2 milljarða til þessa og sér fram á frekara tap. Þá segist Björn nýlega hafa þurft að taka lán upp á 1 milljarð. 

Björn segir ekkert samtal hafa verið við sig þegar sóttvarnarákvarðanir hafa verið teknar og telur hann sig getað boðið upp á mjög örugga þjónustu og haldið öllum smitvörnum.

„Þeir hafa aldrei talað við mig, hvorki fyrr sé síðar, samt er ég langstærstur á þessum markaði á Íslandi og töluvert stærri en allur fótboltinn til samans.“

Töluðu meira að segja við Baggalút

„Þeir höfðu meira að segja samráð við Baggalút hvort þeir gætu haldið tónleika,“ sagði Björn og vísar til geysivinsælla jólatónleika Baggalúts sem haldnir eru á hverju ári undanfarin ár og hluti af jólaundirbúningi margra.

Þá segir hann líkamsrækt í öllum löndum í kringum okkur vera leyfða ennþá og á Spáni sé litið á stöðvar eins og sjúkrahús, til að halda geðheilsu fólks.

„Þeir loka öllu áður en þeir loka líkamsræktarstöðvum,“ segir Björn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert