„Það er kristaltært hvað okkur varðar að við erum alfarið á móti svona neyslustýringarsköttum. Samtökin hafa alltaf verið það,“ segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, um mögulega aukna skattheimtu á ýmis sætindi.
Starfshópur sem heilbrigðisráðherra skipaði til þess að móta tillögur um „aðgerðaáætlun um beitingu efnahagslegra hvata til eflingar lýðheilsu“ hefur skilað umfangsmiklum tillögum til ráðherra. Þar er lagt til að ráðist verði í breytingar á skattkerfinu í því augnamiði að sætindi af flestum toga hækki um 20% í verði.
Þannig leggur hópurinn til að vörugöld verði lögð á gos- og svaladrykki, íþrótta- og orkudrykki og vatnsdrykki sem innihalda sítrónusýru, sælgæti, orku- og próteinstykki, kex, kökur og sætabrauð. Þá telur hópurinn að skattleggja eigi „óhollar vörur á borð við gosdrykki“ þannig að þær falli í 24% þrep virðisaukaskattskerfisins en ekki 11% eins og nú er.
Andrés segir að sporin hræði í þessum efnum og bendir á að gjöld eins og þessi hafi verið sett á fyrir um tíu árum síðan. „Það var ein versta skattheimta sem maður hefur þurft að glíma við á öllum sínum ferli sem hagsmunagæsluaðili.“
Andrés segir að sá skattur hafi engan veginn skilað markmiðum sínum, hvorki lýðheilsu- né tekjumarkmiðum.
Félag atvinnurekenda gerir athugasemdir við frumvarpið og segir neyslu sykraðra gosdrykkja hafa snarminnkað undanfarin áratug. Andrés tekur undir það og segir aðrar leiðir en þær að nota skattkerfið sem neyslustýringu ákjósanlegar:
„Það er mun skynsamlegra að hvetja fólk til heilbrigðra lífshátta.“