Jóhann Hjálmarsson rithöfundur er látinn, 81 árs að aldri. Jóhann fæddist í Reykjavík 2. júlí 1939 og ólst upp þar og á Hellissandi.
Hann lærði til prentiðnar við Iðnskólann, en hélt þaðan til spænskunáms í háskólanum í Barcelona, fyrst árið 1959 og svo frá 1965-1966 er hann lagði þar stund á spænsku, las bókmenntafræði og spænskar bókmenntir. Hann las einnig bókmenntir í Kaupmannahöfn og í Stokkhólmi 1962-1963 þar sem hann lagði stund á norrænar samtímabókmenntir.
Eftir Jóhann liggur sægur ljóðabóka, bæði með eigin ljóðum og ljóðaþýðingum, auk safnrita, en nokkrar þeirra komu út í þýðingu erlendis.
Jóhann starfaði lengi hjá Pósti og síma, var þar útibússtjóri og síðar blaðafulltrúi Pósts og síma frá 1985-1990. Samhliða öðrum störfum var hann bókmennta- og leiklistargagnrýnandi Morgunblaðsins um áratugaskeið, en árið 1990 gerði hann gagnrýnina að aðalstarfi og var umsjónarmaður með bókmenntagagnrýni Morgunblaðsins frá 1990-2000. Þá stjórnaði hann bókmenntaþáttum á RÚV um skeið.
Hann gegndi mörgum trúnaðarstörfum á sínu sviði, sat í stjórn Félags íslenskra rithöfunda og Rithöfundasambandsins, í dómnefnd Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs um árabil og formaður hennar 1987-1989, í þýðinganefnd Evrópusambandsins, Ariane, og annaðist ritstjórn ýmissa menningartímarita hér og ytra. Þá var hann valinn í ótal nefndir á vegum hins opinbera og var félagi í PEN, alþjóðasamtökum rithöfunda.
Jóhann kvæntist Ragnheiði Kristrúnu Stephensen hjúkrunarforstjóra sem lést fyrir rúmum tveimur árum, Þau eignuðust þrjú börn, Þorra, rithöfund og kvikmyndaleikstjóra, Döllu dagskrárgerðarmann og Jóru ljósmyndara.
Morgunblaðið átti langt og heillaríkt samstarf með Jóhanni og þakkar honum samfylgdina.